149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:05]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir það tækifæri að fá að koma þessari umræðu á dagskrá og þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér til svara. Ég hef ekki strokað jafn mikið út og skrifað eins mikið í nokkurri ræðu sem ég hef samið hérna á þingi og í kringum þennan málaflokk því að sífellt komu fram fleiri upplýsingar um málið og það sem þetta orð, forvörn, felur í sér. En ég ætla ekki að eyða tímanum í að tala um það.

Ég er afar þakklátur fyrir þessa sérstöku umræðu um forvarnir, ekki síst vegna þess að með umræðunni eru meiri líkur á að við finnum leið til þess að hamla sérstaklega þeirri þróun að áfengis- og vímuefnaneysla er alltaf að aukast og aldurinn að færast neðar.

Sprautufíknin er orðin algeng hjá ungu fólki allt niður í 12 ára aldur. Það er staðreynd. Við sem höfum áhyggjur af þessu erum vanmáttug. Orðið forvörn nær yfir vítt svið sem virðist alltaf vera að stækka. Ég hef því reynt í þessum undirbúningi að einskorða mig við nokkur atriði. Það eru þrenns konar forvarnir sem ég hef í huga hér í dag, þ.e. áfengis- og vímuefnaforvarnir, geðheilbrigðismál og það sem kallað er annars stigs forvarnir.

Hvað getum við gert til að hamla þeirri þróun sem er í neyslu ungmenna á ávanabindandi efnum og þeirri staðreynd að unglingar eru farnir að sprauta sig í auknum mæli allt niður í 12 ára aldur? Þegar maður spyr þá sem vinna í meðferðargeiranum er svarið: Hamlið framboðinu og hamlið aðgengi að efnum. Sjálfur hef ég ekkert endanlegt svar þrátt fyrir að hafa fylgst með þessum málum með opnum augum í 25 ár. Þó hefur mér stundum fundist ég hafa fundið svarið á einhverjum tíma. Þó að áfengis- og vímuefnavandamálið hafi verið mikið fyrir 25 árum hefur landslagið, ef svo má segja, gjörbreyst því að internetið var ekki þá. En í dag fara þar fram gríðarleg viðskipti á ólöglegum og ávísuðum vímuefnum. Internetið býður alla aldurshópa velkomna til leiks.

Eitt er víst að skólarnir hafa mikið að segja þegar kemur að forvörnum. Og að sjálfsögðu foreldrar og forráðamenn. En misjafnar heimilisaðstæður barna gera það að verkum að forvarnafræðsla í skólum ætti að vera með þeim hætti að líkur séu á að ungt fólk sé meðvitaðra um áhættu þess að byrja að fikta við efni, hvaða nafni sem þau nefnast.

Þeirri vinnu að breyta hugarfari barna verða stjórnvöld að viðhalda. Ég hef lengi sagt að þeir sem taka þá ákvörðun að byrja ekki og segja nei takk séu ekki að missa af neinu. Ég tek sjálfur hatt minn ofan fyrir þeim sem taka þá ákvörðun.

Þegar talað er um annars stigs forvarnir er t.d. átt við að sá sem er bakveikur eða er með kvilla í liðum fær þjálfun eftir faglegum leiðum og fær hjálp til að hjálpa sér sjálfur og fá meiri hreyfigetu, minni verki og betri heilsu. Eins má segja að áfengis- og vímuefnameðferð sé annars stigs forvörn. Að taka áfengissjúkling í meðferð og hjálpa honum til bata gerir viðkomandi að betri fyrirmynd, en góðar fyrirmyndir eru einna bestu forvarnirnar sem til eru.

Á málstefnu undir yfirskriftinni Forðum ungmennum frá fíkniefnum kom fram mikilvægi þess að foreldrar séu upplýstir og fái þjálfun í uppeldi. Og komi fram vandamál hjá börnum sé gripið strax inn í, sem oft er kallað snemmtæk íhlutun, enda er velferð barna mál samfélagsins alls. Gleymum því ekki að býsna stór hluti þjóðarinnar glímir við áfengis- og vímuefnavanda. Sumir halda því fram að hlutfallið sé allt að 20%.

Einhver sagði að það væri ekkert grín að vera unglingur eða barn í dag. Það má kannski til sanns vegar færa þegar við ræðum um forvarnamál. Eins og kom fram í ræðu minni er internetið orðið stór vettvangur viðskipta í ólöglegum vímuefnum. Sagt er að það sé fljótlegra að panta sér vímuefni en pítsu á netinu. (Forseti hringir.)

Ég vil þakka kærlega fyrir þessa dagskrá og veit að það verður góð umræða um þennan málaflokk í dag.