149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:19]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni, fyrir þarfa umræðu. Ég hef fylgst með verkefni dr. Janusar Guðlaugssonar, fjölþættri heilsurækt í sveitarfélögunum, sem er heilsueflandi forvarnaverkefni fyrir 65 ára og eldri.

Nú þegar er hann með 200 þátttakendur í sveitarfélögunum Reykjanesbæ og Hafnarfirði sem taka þátt með athyglisverðum árangri um leið og tekin er ábyrgð á eigin heilsu. Í ljós hefur komið að eftir eitt ár undir handleiðslu dr. Janusar hefur lyfjanotkun þátttakenda minnkað verulega, líðan fólks er mun betri og t.d. hefur blóðþrýstingur lækkað um 6–10% í hópnum, sem er betri árangur en bestu lyf ná.

Við hvert ár sem fjölþætt heilsurækt seinkar innlögn hópsins á hjúkrunarheimili sparast 5,2 milljarðar á ári. Rekstur hjúkrunarheimila á Íslandi kostar 50,2 milljarða á ári. Á næstu 15 árum mun fjölga í hópnum, þ.e. 65 ára og eldri, um 61% og kostnaður rjúka upp úr öllu valdi og fara í yfir 80 milljarða á ári.

Við verðum að huga að öðrum leiðum. Heilsa og heilbrigði og fjölþætt heilsurækt í sveitarfélögum er lykill að betra ævikvöldi fyrir alla. Það sáu nágrannar okkar á Norðurlöndum fyrir mörgum árum síðan og við verðum að fylgja í kjölfarið. Þá verðum við líka að sýna í verki að við viljum vinna að forvörnum, styrkja stofnanir eins og Heilsustofnunina í Hveragerði, sjúkrahúsið Vog sem rekið er af SÁÁ, Hlaðgerðarkot og Krýsuvíkursamtökin.

Þetta minnir okkur á sjónvarpsþættina tvo sem við höfum horft á tvö síðustu kvöld. Það er þyngra en tárum tekur að horfa á þá miklu ógæfu sem eiturlyfin kalla yfir þá sem í þeim lenda, fjölskyldur þeirra og okkur öll. Maður hefur grátið af minna tilefni.