149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:32]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni, fyrir mikilvæga umræðu. Forvarnir eru afar mikilvægar á mjög mörgum sviðum en það er unga fólkið sem ég hef mestar áhyggjur af og þá einkum geðrænir erfiðleikar ungs fólks.

Í framhaldsskólum landsins glíma nemendur við vandamál eins og kvíða, þunglyndi, fíkn og félagsfælni svo eitthvað sé nefnt. Við sem störfum og kennum í þeim skólum erum oftar en ekki í hlutverki sálfræðinga án þess að hafa til þess menntun. Það er mikil þörf á bættu aðgengi ungmenna að sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu, ekki síst úti á landi.

Vandinn er ekki síst mestur hjá ungum karlmönnum. Þeir virðast eiga erfiðara með að finna sér stefnu í lífinu og það er reynsla flestra kennara að oft sé erfiðara að kveikja áhuga þeirra en ungra kvenna og erfiðara að fá þá til að taka ábyrgð. Slíkir erfiðleikar geta haft skelfilegar afleiðingar. Við starfsfólk og kennarar framhaldsskólanna höfum allt of mikla reynslu af því að takast á við sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir nemenda okkar.

Það fyrsta sem okkur dettur í hug er að taka á vandanum með því að auka aðgengi að sálfræðingum og geðlæknum. Það er mikilvægt, en einnig ættum við að vera að vinna meira í forvörnum. Við eigum að eyða meiri tíma í skólakerfinu í að vinna gegn skaðlegri hegðun. Fræðsla er lykilorð eins og svo oft áður og þess vegna þarf að vera rými fyrir hana í skólakerfinu. Fræðum ungmennin okkar, t.d. um ábyrga netnotkun, mikilvægi svefns, skaðlega áhættuhegðun, mikilvægi þess að tala um tilfinningar, mikilvægi þess að setja sér mörk. Fræðum einnig foreldra um sömu hluti.

Þau erfiðu mál eru hvort tveggja menntamál og heilbrigðismál. Hæstv. heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra vinna nú í sameiningu að því að efla sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum. Meðal þeirra tillagna sem eru til skoðunar er að gefa kost á markvissri gjaldfrjálsri skólaheilsugæslu í framhaldsskólum, líkt og gert er í grunnskólum, og auka aðgengi að sálfræðiþjónustu á netinu. Einnig að efla forvarnir og fræðslu, t.d. í samvinnu við heilsugæsluna.

Ég fagna þeirri vinnu og hvet hæstv. ráðherra Svandísi Svavarsdóttur og Lilju Alfreðsdóttur til dáða í henni.