149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:41]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda sérstaklega fyrir þessa þörfu umræðu. Hún snertir mig í hjartastað sem lýðheilsufræðing til marga ára hér á Íslandi. Ég verð að reyna að vera mjög hnitmiðaður á þessum tveimur mínútum.

Mig langar að byrja á því að benda á þessa stóru mynd sem fólk hefur verið að tala um hér í dag. Fyrst má nefna það að ágæt grein eftir Karl Andersen og Vilmund Guðnason, rituð í Læknablaðið 2013, sýnir okkur hvernig þessi heildræna nálgun er. Þeir taka góðan punkt og sýna okkur samhengið við lýðheilsumál í Evrópu. Þar kemur fram að 70–80% af kostnaði til heilbrigðismála í Evrópu megi rekja til lífsstíltengdra sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir að stórum hluta. Við höfum verið meðvituð um þetta í töluverðan tíma. Framsóknarflokkurinn m.a. hefur lagt áherslu á lýðheilsumál undanfarin ár og er afrakstur þess lýðheilsustefna sem kom út 2016 að frumkvæði flokksins. Þar er hvorki meira né minna en lagt til að Íslendingar verði heilbrigðasta þjóð heims árið 2030 þannig að við megum engan tíma missa.

Mig langar að benda á það að SÍBS tók saman góðar tölur nýverið um heildarútgjöld til heilbrigðismála og þar kemur í ljós að aðeins 2% af heildarútgjöldum til heilbrigðismála fara í forvarnir. Þessu þurfum við að breyta.

Ég vil koma að einni spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra um verkefnið Heilsueflandi samfélag og vil spyrja, vegna þess að verkefnið er þarft og gott og gengur vel, hvort ráðuneytið hugsi sér að meta þjóðhagslegan ávinning verkefnisins í heild.