149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:13]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég verð að segja að það veldur mér miklum vonbrigðum að verið sé að gefast upp á því verkefni að reka sameiginlegt velferðarráðuneyti. Þetta snýst ekki um krónur og aura og hvað það kostar að vera með einn ráðuneytisstjóra eða tvo heldur hvað sé hægt að spara í útgjöldum til heilbrigðismála á félagsmálahlið ráðuneytisins og öfugt. Það er alveg augljóst þegar á þennan málaflokk er horft að þar eru gríðarlegir samstarfsmöguleikar og í raun og veru hagræðingarmöguleikar, þ.e. útgjöld á sviði félagsmála sem geta sparað heilbrigðiskerfinu okkar gríðarlegar fjárhæðir þegar fram í sækir og sömuleiðis útgjöld á sviði heilbrigðismála sem geta sparað okkur gríðarlegar fjárhæðir á félagsmálasviðinu.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Hvers vegna er verið að gefast upp á þessu verkefni svona auðveldlega? Mér sýndist þegar ég sat í þessu ráðuneyti að það væri enginn vandi að skapa gott samstarf milli félagsmálahlutans og heilbrigðishlutans. Það stafaði fyrst og fremst af pólitískum vilja, þ.e. að ráðherrarnir sjálfir kærðu sig um slíkt samstarf. (Forseti hringir.) Hér virðist vera enn og aftur á ferðinni að ráðherrum líður illa að deila ráðuneytisstjóra, þess vegna sé verið að skipta ráðuneytunum upp. Væri ekki nær að senda ráðherrana á samskiptanámskeið?