149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:17]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við skulum horfa til skandinavískrar stjórnsýslu. Þar er hefðin sú að ríkisstjórn og framkvæmdarvald á hverjum tíma skiptir bara verkum án þess að þurfa að leita til þingsins. Þar eru oft mjög óvenjulegar samsetningar á ráðuneytum. Ég vann vel með jafnréttis- og kirkjumálaráðherra sem sömuleiðis var menningarmálaráðherra. Þar er hreyfanleikinn milli ráðuneyta mjög mikill. Það er í raun og veru fyrst og fremst ákvörðun framkvæmdarvaldsins hvernig það hagar sinni stjórnsýslu.

Hv. þingmaður vísar í það að ég hafi setið í ríkisstjórn þegar þessi ráðuneyti voru sameinuð. Ég var ein af þeim sem vildu fá meiri sveigjanleika í stjórnsýsluna, sem vildu að framkvæmdarvaldið gæti hagað málum og sett pólitíska forystu í þau mál, en þá voru til umræðu stjórnarráðslög og gríðarleg andstaða var við smæstu breytingar á þeim, bara svo það sé rifjað upp, 2011 og 2010 ef ég man rétt. Framkvæmdarvaldið á Íslandi þarf að leita til þingsins. Rökin hins vegar í þessu tilviki eru fyrst og fremst faglegs eðlis, þ.e. þetta eru tveir mjög stórir málaflokkar (Forseti hringir.) sem þurfa töluverða athygli og umhyggju, það er það sem er verið að leggja til með þessu. Það er ekkert sem hindrar gott (Forseti hringir.) samstarf þessara ráðuneyta sín á milli né á milli annarra ráðuneyta.