149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:37]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að mæla fyrir þingsályktunartillögunni. Ég held að mér lítist ágætlega á hana. Þetta er í annað skipti síðan ég kom á þing sem ég tek til máls um uppskiptingu ráðuneyta. Síðast var það þegar fyrrverandi innanríkisráðuneyti var skipt upp í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og dómsmálaráðuneyti. Ég var mjög hlynnt þeirri breytingu enda taldi ég lengi að innanríkisráðuneytið væri allt of umfangsmikið og þar vantaði ákveðna sérhæfingu, sérstaklega er varðaði dómsmálin og samgöngumálin. Þetta var hreinlega of stórt apparat.

Ég minnist þess að margir tóku til máls í þeirri umræðu og nefndu að velferðarráðuneytið ætti kannski frekar að huga að uppskiptingu vegna þess hversu stórir og miklir málaflokkarnir væru þar og hversu mikla fjármuni þeir tækju til sín. Ég get vel keypt þau rök en það breytir þó ekki þeirri staðreynd að alltaf verður mjög mikilvægt að ráðherrar og starfsmenn í ráðuneytunum vinni mjög náið saman, eins og víða.

Ég minnist sérstaklega á það núna vegna þess að ég held að svo mikilvægt sé að við gleymum okkur ekki í kerfistalinu. Óháð því hversu margir aðstoðarmennirnir eða ráðuneytisstjórarnir eru er það litla málið. Stóra málið er að fólkið þarna úti sem greiðir skatta fái þá þjónustu sem það þarf á að halda.

Ég var nýverið á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga þar sem fjallað var um gráu svæðin í þjónustu sveitarfélaga, þar sem er á gráu svæði hvort verkefni eru á hendi sveitarfélaga eða ríkisins. Það er svo líka á gráu svæði hvort þau eiga heima hjá velferðarráðuneytinu, undir velferðarmálum, eða með heilbrigðismálunum eða annars staðar. Þetta held ég að sé stóra málið og það sem við þurfum að hafa í huga við öll mál. Ég get nefnt málefni geðfatlaðra. Eru þau heilbrigðismál? Er þau málefni fatlaðra og eiga þar af leiðandi heima hjá sveitarfélögunum eða eru þau velferðarmál? Líklega eru þau það allt saman.

Þarna held ég að stóra málið snúist um að við þurfum að taka okkur á í að skýra og tryggja að fólk fái ávallt þá þjónustu sem það þarf á að halda óháð því undir hvaða ráðuneyti mál þeirra fellur, hvort það fellur undir framkvæmdarvaldið í ráðuneytunum eða hitt stjórnsýslustigið, sveitarstjórnarstigið.

Þá langar mig aðeins að koma inn á það sem hæstv. forsætisráðherra nefndi um hreyfanleika. Ég er ekki talsmaður íhaldssamra afla þegar kemur að þeim málaflokki. Ég held nefnilega að það megi alveg vera mismunandi áherslur eftir ríkisstjórnum, eftir áherslum sem uppi eru í samfélaginu á hverjum tíma fyrir sig og að eðlilegt sé að verkefni geti flætt á milli ráðherra. Þess vegna fannst mér áhugavert að heyra hæstv. forsætisráðherra nefna að víða í Skandinavíu þyrfti ekki sérstakar lagabreytingar, að það þurfi ekki að fara fyrir þjóðþingið. Mér finnst það áhugaverð umræða.

Mig langar líka að koma inn á þann mikilvæga málaflokk sem húsnæðismálin eru. Ég held að við höfum rætt það mál, stöðu húsnæðismarkaðarins, hvað mest frá því að ég hóf störf á þingi bæði í sérstökum umræðum og öðru. Ég er ein af þeim sem hafa bent á að óæskilegt sé hvað málaflokkurinn er skiptur á milli margra ráðuneyta. Ég kynnti mér hvernig það er á Norðurlöndunum og held að það sé mjög breytilegt. Hv. þingmaður sem ræddi á undan mér vísaði í að sá málaflokkur ætti frekar heima í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Ég held að það tíðkist víða en ég held að líka tíðkist víða að hann sé undir velferðarmálum eða félagsmálum. Mér hugnast sú breyting því ágætlega en vil jafnframt ítreka í því máli, eins og í öðrum, að mjög náið samstarf þarf á milli ráðuneyta. Skipulagsmálin verða enn þá undir umhverfisráðuneytinu, sem er mjög eðlilegt því að ráðstöfun og landnýting eru risastór umhverfismál.

Húsnæðismálin eru líka í iðnaðarráðuneytinu þar sem mannvirkjageirinn fellur auðvitað þar undir. Það mun svo sem halda áfram að eiga heima hjá mörgum ráðuneytum og þá, eins og í málefnum geðfatlaðra, langveikra barna og annarra sem þurfa þjónustu, þurfum við að horfa heildstætt á málið óháð því undir hvaða ráðuneyti það fellur.

Eins og ég segi líst mér ágætlega á tillöguna og hlakka til að heyra hvað hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur um málið að segja þegar það kemur til síðari umr.