149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:49]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég stend hér upp til þess að lýsa mig almennt meðmæltan þessu þingmáli. Forsaga þeirra tveggja ráðuneyta sem var slengt saman í eitt ráðuneyti á sínum tíma er ítarlega rakin. Saga félagsmálaráðuneytisins teygir sig aftur fyrir miðja síðustu öld og heilbrigðisráðuneytið var sett á laggirnar 1970. Það er gjarnan álitamál þegar teknar eru ákvarðanir um hvernig skipa skuli málaflokkum á milli ráðuneyta. Svona tilsýndar hefur sýnst að velferðarráðuneytið, sem svo hefur verið kallað, hafi haft mjög umfangsmikil verkefni og á seinni tímum hefur verið talið að þau væru það víðfeðm að ekki dygði minna en hafa tvo ráðherra þar um borð.

Ég ætla að leyfa mér að taka undir með hv. þm. Páli Magnússyni, þó að hann sé horfinn héðan úr salnum, varðandi val á heitum ráðuneyta. Ég ætla að leyfa mér að segja það að stundum hefur mér sýnst að borið hafi á nokkurri tilgerð í þessum efnum og þarf ekki að fara lengra en að vísa í heiti ráðuneytisins eins og það kallast nú, velferðarráðuneytisins, sem er út af fyrir sig ekki sérlega íslenskulegt, fyrir utan það að það fer ekki vel í munni.

Heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið, um þau gegnir allt öðru máli. Ég vil sömuleiðis leyfa mér að taka undir með hv. þingmanni þegar hann hvetur ráðherra til þess að hafa heiti ráðuneytisins af einfaldara taginu. Ég vil í þriðja lagi taka undir með hv. þingmanni um það að hæstv. forsætisráðherra hefur sannarlega getið sér orðs fyrir mikinn og góðan smekk þegar kemur að íslensku máli.

Verandi nefndarmaður í hv. fjárlaganefnd hlýt ég að segja að ég sakna þess að í tillögunni skuli ekki vera ítarlegri greinargerð en raun ber vitni um kostnað og út af fyrir sig greiningu á því viðfangsefni sem þar er lagt upp með. Að því sögðu vil ég ítreka það og endurtaka sem ég sagði að ég styð þá meginstefnu sem hér er fylgt, að þessi ráðuneyti verði tvö og að þau leggi úr vör sem tvö ráðuneyti frá og með komandi áramótum.