149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:54]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Það er til fornt latneskt spakmæli þess efnis að um smekk verður ekki deilt. Það er rétt, sem hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir segir, ég hafði það í huga, þegar ég mælti þau orð sem ég lét falla varðandi heiti ráðuneytisins. Það má enginn skilja mig á þann veg að ég leggi ekki þunga áherslu á það að málefni barna fái vandaða og ítarlega meðferð í Stjórnarráði Íslands. En það getur bara hver og einn, sem veltir þessum málum fyrir sér, spurt sjálfan sig hversu vel fari á því að tala um barnamálaráðherra — ég veit það ekki, það er nú þannig að sumt er vont en það venst, það getur vel verið að það verði hægt að venjast þessu. Almennt talað vil ég bara ítreka það að menn eiga að huga vel að heitum stofnana og ráðuneyta og ég ítreka að menn hafa á stundum, ekki síst á seinni árum, gerst nokkuð fljótir á sér að hlaupa eftir einhverjum meintum tískubylgjum í þessu. Hitt er annað að heiti hinna gömlu ráðuneyta eru ágæt. Félagsmálaráðuneytið er ágætisheiti á ráðuneyti og á sér langa og virðulega sögu í íslensku samfélagi. Um heilbrigðisráðuneytið gildir það sama.

Það var þarna tilhneiging, og er kannski enn þá varðandi menntamálaráðuneytið, að hengja þar aftan við alls konar hugtök o.fl. Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, en verður aftur hugsað til þeirra ágætu manna, Rómverja.