149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[19:20]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og framlagningu á þessu frumvarpi. Ég get ekki látið hjá líða að koma hér upp og ræða svipaða þætti og ég ræddi þegar hún lagði fram þetta frumvarp síðast. Eins og hæstv. ráðherra fór yfir í ræðu sinni kemur þetta frumvarp nú fram aftur og mér finnst mjög gott að búið sé að taka tillit til þeirra ábendinga sem fram hafa komið hjá hagaðilum.

Ég hef lengi haft efasemdir um það hvort rétt væri að inni á hjúkrunarheimilum byggi fólk sem væri miklu yngra en 67 ára. Ég hef fullan skilning á því að upp kunni að koma aðstæður þar sem eðlilegt er að mismuna fólki ekki eftir aldri, en þegar við erum aftur á móti að tala um ungt fólk sem mun búa inni á slíku heimili í fjölda ára finnst mér það líta svolítið öðruvísi út. Ég ætla alls ekki að leggjast gegn frumvarpinu, ég styð það og hef fullan skilning á því að í ljósi þess að við erum með regluverk í kringum hjúkrunarrýmin okkar sé eðlilegt að hið sama gildi um dagdvalir og dvalarheimili. Oft og tíðum er verið að ræða um eitthvert stutt árabil.

Ég vek máls á þessu af því að ég held að við þurfum að huga sérstaklega að þörfum ungs fólks sem býr á hjúkrunarheimilum og þá ætti það sama að eiga við um fólk sem býr í dvalarrýmum.

Ég hygg að þetta fólk þurfi oft annars konar þjónustu en þeir sem eldri eru. Ég fagna því sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að bent er á að við eigum auðvitað að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og að þjónustuþörfin geti verið mjög ólík óháð aldri en það breytir því ekki að félagsleg staða þeirra sem yngri eru er oft og tíðum öðruvísi.

Ég held að það sé mikilvægt verkefni fyrir okkur á næstu misserum þegar þjóðin er vissulega að eldast, og það er ljóst að það er mikil þörf á fleiri hjúkrunarrýmum en líka dvalarrýmum og dagdvalarrýmum, að horfa til þess hvort við þurfum í auknum mæli að bjóða upp á sérstaka þjónustu þegar um yngri einstaklinga er að ræða og jafnframt að velta því þá upp hvort það sé frekari fjárþörf þegar um yngri einstaklinga er að ræða.

Ég vísa sérstaklega til máls sem ég þekki býsna vel og varðar unga einstaklinga sem búa á hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ. Ég veit að Mosfellsbær hefur sótt til hæstv. ráðherra um auknar greiðslur með þeim ungu einstaklingum. Ráðuneytið hefur að einhverju leyti komið til móts við slík sjónarmið. Ég veit að í Reykjavík er rekin á Brekkubæ sérstök deild sem er tilraunaverkefni þar sem ungir einstaklingar sem þurfa á hjúkrunarþjónustu að halda búa saman.

Ég vildi bara vekja athygli á þessu máli og brýna okkur sem hér erum inni og sérstaklega hæstv. ráðherra til að horfa sérstaklega til þess máls þegar kemur að þessum málaflokki.

Þá langar mig líka að nefna grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun eftir Pétur Magnússon, formann Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, þar sem hann spyr: „Gleymdust dagdvalirnar eða er ætlunin að leggja þær niður?“

Ég hygg að svar okkar hér sé að það sé alls ekki ætlunin að leggja þær niður og vil bara ítreka hversu mikilvæg þjónusta það er fyrir einstaklingana sem hennar njóta og aðstandendur. Við verðum líka að velta upp kostnaðarþættinum. Dagdvalarþjónustan er mjög hagkvæmt úrræði fyrir hið opinbera og þar af leiðandi held ég að það sé mikilvægt að við gefum í ef eitthvað er þegar kemur að þeim þjónustuþætti.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt frekar. Ég vildi bara benda á þetta þegar við erum að ræða um að opna enn frekar á það að yngri einstaklingar geti nýtt sér slíka þjónustu. Ég ítreka að ég hef skilning á því að oft og tíðum kunni það að vera besta lausnin en ég held að það mikilvægasta sé að það sé ekki eina lausnin sem í boði er, að einstaklingarnir og aðstandendur þeirra hafi val þegar kemur að þjónustu og það að við tryggjum fyrst og fremst að þjónustan sé miðuð við þarfir viðkomandi aðila.