149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Með leyfi forseta, í tilefni dagsins ætla ég að fara með ljóð:

Þeir börðust, þeir börðust um brauðið og grautinn,

því brauð og grautur er mannanna fæða.

Þeir hlupu, þeir stukku, þó hlykkjótt sé brautin

að hamingjulind vorra jarðnesku gæða.

Og einn fékk þar of lítið og annar meira en nóg,

og einn lést af fylli, en hinn úr sulti dó.

Að ráða slíka gátu er mönnum þyngsta þrautin.

Þannig hljóðar sagan um brauðið og grautinn.

Í dag er alþjóðadagur gegn fátækt. Alþjóðadagur um það að við stöndum saman og útrýmum fátækt. Enn í dag, nýlega, er börnum meinað að vera með félögum sínum inni í matsal skóla. Við erum ekki komin lengra en það. Við erum með þúsundir sem lifa í fátækt, við erum með börn sem lifa í fátækt.

Baráttukonan Inga Sæland stofnaði Flokk fólksins, númer eitt, tvö og þrjú í þeim tilgangi að útrýma fátækt. Þess vegna er ég staddur hér líka í þessum ræðustól. Við erum búin að sýna fram á að það er verið að skatta sárafátækt. Skattheimtur hafa verið stórauknar síðustu tugi ári, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn sér til þess að fátækt er við haldið. Það er ekki einu sinni hægt að standa saman um það að hætta að skerða t.d. lyfjastyrki, alls konar styrki sem leiðir til þess að fólk fer í enn þá meiri fátækt, þar sem er verið að plata fólk. Það er ekki einu sinni komið inn frumvarp um að leiðrétta það. Það á greinilega ekkert að gera, en munið það að í dag er baráttudagur gegn fátækt. Mannréttinda- og félagasamtök eru með alls konar viðburði í þeim tilgangi að berjast gegn fátækt og við gætum sýnt gott fordæmi. Við erum rík þjóð, við gætum sýnt það strax á morgun ef vilji væri til (Forseti hringir.) og séð til þess að ekkert barn þurfi að lifa við fátækt.