149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu.

[15:53]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt fyrir land eins og Ísland, í þeirri stöðu sem við erum í, að fá mikið af erlendum fjárfestingum svo að hægt sé að byggja upp og erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu eru ekkert síður af hinu góða. Þær eru þó almennt lægri hér en góðu hófi gegnir. Erlendir fjárfestar hafa heilt yfir verið að draga fé út úr landinu meira en inn í landið undanfarin ár sem þrengir að fjármögnunarmöguleikum íslenskra sprota- og vaxtarfyrirtækja, jafnvel í ferðaþjónustu. Hluti af þessu er tengdur fjárfestingarbindiskyldu Seðlabankans sem átti aldrei að verða hagstjórnartæki en á sennilega sök í máli.

Þegar við erum að tala um þetta í samhengi ferðaþjónustu og landareignar er þetta að hluta til byggt á réttmætum ótta við samkeppni um land, auðlindir og tækifæri vegna þess að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi. Ég er á því að Íslendingar eigi ekki að vera hræddir við samkeppni heldur fagna henni og leita um leið út fyrir landið og út fyrir sinn þægindaramma.

Ef fólk hefur áhyggjur af landareign og neikvæðum áhrifum þess til framtíðar legg ég til að auðlindaréttur verði betur aðskilinn frá landareign en er í dag og jafnvel að farið verði að tillögum Benjamins Tuckers eða Kevins Carsons um skattlagningu landareignar sérstaklega þannig að ekki verði til hvatar, eða verði jafnvel til sterkir gagnhvatar, til rentusækni, einokunar og misnotkunar auðlinda án þess að rýra um leið getu fólks til að nýta land í uppbyggilegum og arðbærum tilgangi eftir því sem það á við.

Það er ekkert eðlislögmál að auðlindir fylgi landareign þannig að það er eðlilegt að við stýrum auðlindaaðgengi þannig að niðurstaðan verði góð. Hvort sem eignarhaldið er innlent eða erlent á landi eða fyrirtækjum, er ekki aðalatriðið að við reynum að líta út fyrir landsteinana, í það minnsta í jöfnum mæli við það að erlendir aðilar leiti inn? Í öllu falli ættum við að reyna að tryggja réttindi og hagsmuni þeirra sem búa á landinu (Forseti hringir.) á hverjum stað á hverjum tíma þannig að við séum a.m.k. með góðan lagaramma um þessa hluti.