149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu.

[16:16]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa yfirgripsmiklu umræðu. Hér var tekið á mörgum málum sem eru svo sem ekki öll leidd í jörð hér. Í grunninn finnst mér hægt að segja að erlend fjárfesting sé almennt af hinu góða. Við landakaup, sérstaklega þegar þau innihalda auðlindir, vakna allt aðrar spurningar og við höfum ekki leyst úr því öllu saman.

Ísland sem áfangastaður snýst um hið upprunalega og sérstaka og sjálfbærni og gæði umfram magn. Fjárfestingar í ferðaþjónustu snerta síðan auðvitað nærsamfélagið mjög djúpt og þess vegna er mikilvægt að tryggja sem best samstarf við sveitarfélög og atvinnuþróunarfélög á hverjum stað, líkt og hv. þm. María Hjálmarsdóttir nefndi. Við þurfum erlendar fjárfestingar og eins og ég nefndi og fleiri hafa gert snýr það ekki eingöngu að fjármunum heldur þekkingu, framförum, hugviti, reynslu og áhættudreifingu í íslensku atvinnulífi.

Það er okkar að passa stýringuna. Um stefnumótun í ferðaþjónustu vil ég bara nefna að hún er hafin með vinnu um svokallað álagsmat umhverfis, innviða og samfélags gagnvart fjölda ferðamanna. Niðurstaðan úr þeirri vinnu mun auðvitað undirbyggja alla stefnumótun.

Ég vil segja að lokum að mér finnst það fanga ágætlega það sem um er rætt hér og allt sem snýr að og við ræðum um ferðaþjónustu, og svo sem kannski almennt fyrir okkur sem hér búum og landið okkar, að við höfum efni á því að gera kröfur í öllum skilningi. Við eigum sömuleiðis að hafa sjálfstraust til að gera þessar kröfur. Við eigum að vanda okkur og við eigum að vera dugleg við það og í meira mæli að líta til landa sem oft eru komin lengra en við í ýmsum málum og þar er Nýja-Sjáland dæmi. Vafalaust getum við litið til þeirra varðandi ýmislegt af því sem við ræðum hér og lært af því (Forseti hringir.) sem þar hefur verið gert.