149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

staða krónunnar.

[10:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra bendir á að krónan sveiflast og kjör fólks í landinu með en það er augljóst að aðgerðir sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu duga ekki. Það þarf að gera betur. Hvers vegna fer staða ferðaþjónustunnar versnandi? Var það ekki löngu fyrirséð að svo snarpur vöxtur og miklar fjárfestingar í kjölfarið yrðu ekki sjálfbærar?

Við því var varað og tillögur felldar í þessum sal sem hefðu getað komið í veg fyrir stöðuna sem nú er uppi. Hefðu stjórnvöld ekki átt að grípa í taumana fyrir löngu síðan og nota þau tæki sem þau búa yfir til að tempra vöxtinn og passa að setja ekki einu sinni enn öll eggin í sömu körfuna? Voru það ekki líka hagstjórnarmistök sem voru undirliggjandi fyrir falli krónunnar á kostnað almennings? Krónan hefur staðið völtum fótum frá upphafi með tilheyrandi áföllum fyrir almenning.

Hæstv. forsætisráðherra segir að málið leysist ekki með því að ganga í Evrópusambandið. Þá spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hvernig ætlar ríkisstjórnin (Forseti hringir.) að ráðast að rót vandans án þess að taka upp nýjan gjaldmiðil?