149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að vandi evrusvæðisins sé hagstjórnarvandi. Ég held að gjaldmiðill sé ekkert annað en tæki sem nýtt er í hagstjórn. Þannig hef ég að minnsta kosti skilið það þau 10 ár sem ég hef setið á þingi. Af því að hv. þingmaður spyr mig hvort ég muni ekki hvað gerðist í hruninu þá man ég það mjög vel. Ég hef fylgst mjög vel með því sem gerst hefur á Íslandi allt frá hruni. Það er rétt, hrunið varð skarpt á Íslandi og mjög erfitt fyrir allan almenning í þessu landi. En við höfum líka náð ótrúlegum efnahagsbata, þökk sé hv. þingmanni og fleirum, og þá getum við rætt hvað skipt hefur máli í þeim bata. Hefði sá bati verið jafn hraður innan evrusvæðisins?

Við sjáum ákveðna efnahagsstjórn á evrusvæðinu sem ekki hefur gefið jafn góða raun og sumir vilja vera láta. Það er bara eðlilegt því að við eigum að deila um hagstjórn. Það er engin töfralausn í hagstjórn eða gjaldmiðlum. Það er því miður alltaf umræðan að það sé einhver töfralausn, (Forseti hringir.) að nú verði bara að skipta um gjaldmiðil og þá verði allt í lagi. Þetta snýst um miklu margháttaðri þætti en það. (Forseti hringir.) Þess vegna segi ég: Ég tel að evrusvæðið, af því að hv. þingmaður (Forseti hringir.) spyr um það, glími við ákveðinn vanda sem felst í (Forseti hringir.) ónógri miðstýringu á gjaldmiðlinum.