149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði að ég fagna aðkomu þingsins að þessari umræðu ef vilji er fyrir hendi. Ég minni hins vegar hv. þingmann á að þessi vegferð hófst í tíð hans í ríkisstjórn. Það var niðurstaða þáverandi ríkisstjórnar að gera þetta með þessum hætti, að kalla til þrjá sérfræðinga og efna ekki til þverpólitísks samráðs. Raunar man ég nú ekki til þess að það hafi verið jafn mikið þverpólitískt samráð í tíð nokkurrar ríkisstjórnar og þeirrar sem nú situr. En eins og ég segi fagna ég því alltaf að eiga samtal við þingið og að þingið eigi sem flest samtöl um þessi mál.

Hins vegar hlýt ég að segja — fyrst hv. þingmaður segir: Við sjáum hér hinar hörmulegu afleiðingar peningastefnunnar í 100 ár — að það sé rétt. Það hefur ýmislegt gengið á. En hvar stendur nú Ísland þegar við skoðum alþjóðlega mælikvarða um lífskjör, hagsæld og lífsgæði? Er það ekki ansi ofarlega þegar við skoðum þessa mælikvarða? Eru það hinar hörmulegu afleiðingar peningastefnunnar?

Ég held að við verðum að horfast í augu við að þetta er ekki svart/hvít mynd. (Forseti hringir.) Mér finnst ekki hægt að tala um að eitthvað sé hörmulegt, hvorki á evrusvæðinu né krónusvæðinu, (Forseti hringir.) heldur eigum við að reyna að ræða þetta út frá kostum og göllum.