149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:55]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það kom mér satt að segja á óvart þegar þáverandi ráðherranefnd um efnahagsmál fól starfshópi í mars 2017 að endurmeta peningastefnu Íslands. Ekki aðeins vegna þess þrönga ramma sem nefndinni var ætlað að starfa innan heldur einnig vegna þess að í september 2012 hafði Seðlabankinn gefið út mjög ítarlegt rit um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Markmiðið var að ritið yrði grundvöllur málefnalegrar umræðu um efnið og auðveldaði stjórnvöldum jafnt sem almenningi að taka upplýsta afstöðu til þess hvert skuli stefna í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar.

Þetta viðamikla rit Seðlabankans var unnið af fjölda sérfræðinga bankans og er í 25 innihaldsríkum köflum. Einn kaflinn fjallar um reynslu Íslendinga af sjálfstæðri peningastefnu og sveigjanlegu gengi og bent er á að í samanburði við reynslu annarra þjóða af peningastefnu með formlegu verðbólgumarkmiði sé slök reynsla Íslendinga sláandi. Verðbólga hefur löngum verið mikil hér á landi og lengstum yfir markmiði. Reyndar virðist saga peningastefnu og gjaldmiðlamála á Íslandi vera þyrnum stráð allt frá upphafi, óháð því hvernig gengis- og peningastefnan hefur verið útfærð.

Í riti Seðlabankans eru helstu ástæður þessa slælega árangurs raktar. Við erum berskjölduð fyrir sveiflum í alþjóðlegu verði matvæla og hrávöru. Fábreytni innlendrar framleiðslu og útflutnings gera að verkum að sérhæfing verður mikil og þjóðarbúskapurinn óstöðugri en í öðrum stærri hagkerfum. Líklegt sé því að stjórn peningamála verði ávallt erfiðari hér en í stærri hagkerfum þar sem atvinnuuppbygging er stöðugri.

Í skýrslunni sem við ræðum hér er aðstæðum líka lýst. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ísland býr við mörg sérkenni sem ljóst er að gera peningamálastjórnun erfiða. Hagkerfið er agnarsmátt. Útflutningsatvinnuvegir einhæfir og sveiflukenndir. Takmarkaður seljanleiki ríkir á flestum fjármálamörkuðum sem gerir verðmyndun hnökrótta. Myntkerfið er ekki aðeins lítið heldur er mitt á milli tveggja stærstu myntsvæða í heimi, [bandaríkjadals] og evru, sem hlýtur að gera sjálfstæða peningamálastjórnun ákaflega erfiða viðfangs. Verðlag verður fyrir miklum áhrifum af gengishreyfingum — og gjaldeyrismarkaðurinn hefur síðan reynst vera ótemja. Hefðbundin vaxtaleiðni frá sjö daga stýrivöxtum út á vaxtarófið virðist einnig mjög takmörkuð — sem takmarkar enn svigrúm peningastefnunnar.“

Í riti Seðlabankans er þeirri spurningu einnig velt upp hvort peningastefnan og hagstjórnin hér á landi hafi verið nægilega góð. Svarið er nei. Peningastefnan og ríkisfjármálin hafa ekki togað hagkerfið í sömu átt og árangur því að sama skapi lélegur. Stefnan í ríkisfjármálum hafi fremur stuðlað að því að auka ójafnvægið í þjóðarbúskapnum fyrir hrun fremur en að draga úr því þar sem saman hafi farið vöxtur útgjalda, illa tímasettar skattalækkanir, mikil fjárfesting sem opinberir aðilar ákváðu og grundvallarbreyting á húsnæðislánakerfinu.

Höfundar skýrslunnar sem við ræðum hér, Framtíð íslenskrar peningastefnu — endurmat á ramma peningastefnunnar, gefa hagstjórninni ekki heldur háa einkunn. Ekki fæst betur séð en að efnahagsstjórn, sem lengst af hefur verið í höndum Sjálfstæðismanna, fái falleinkunn í báðum skýrslunum.

Hlutverk hagstjórnar ætti að vera að hámarka efnahagslega velferð almennings. Þar sem peningastefna er mikilvægur þáttur hagstjórnar er því eðlilegt að markmið hennar sé einnig að hámarka efnahagslega velferð almennings.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að skýrslubeiðnin hefði komið mér á óvart en það kemur einnig á óvart hversu takmörkuð skýrslan er. Kannski er ekki við höfunda að sakast heldur að þeim hafi verið ætlað að ganga út frá þeirri forsendu að krónan verði áfram gjaldmiðill Íslendinga, að aðeins tvennt komi til greina: Áframhald stefnu síðustu ára með sjálfstæðri peningastefnu Seðlabankans eða að gengið verði fest við annan gjaldmiðil með myntráði. Og myntráð er slegið út af borðinu í skýrslunni og reyndar einnig í skýrslu Seðlabankans.

Með myntráði skuldbinda stjórnvöld sig til að skipta innlendum gjaldmiðli út fyrir kjölfestugjaldmiðilinn á fyrir fram ákveðnu gengi og er skuldbindingin jafnframt fest í lög til að auka trúverðugleika hennar enn frekar. Til þess að uppfylla þessi skilyrði þarf myntráð að byggja upp gjaldeyrisforða sem nægir til að slíkur innleysanleiki sé tryggður. Þar sem kostnaðurinn við stofnun myntráðs er mikill og kostnaður við að víkja frá gengismarkmiðinu að sama skapi mikill hefur stofnun myntráðs jafnan í för með sér meira traust á markmiðinu en við annars konar gengistengingu. Auk þess þyrfti að halda mjög mikinn gjaldeyrisforða til að styðja við gengistenginguna. Hann þyrfti einnig að vera nægilega mikill til að mögulegt sé að veita innlendu fjármálakerfi lausafjárfyrirgreiðslu, lendi fjármálafyrirtæki í lausafjárvanda, a.m.k. á meðan þau eru að mestu í innlendri eign. Að því leyti er nauðsyn mikils gjaldeyrisforða, og svo mikill gjaldeyrisforði er kostnaðarsöm ráðstöfun.

Að lokum er brýnt að víðtækur pólitískur stuðningur sé um að bera þann skammtímakostnað sem fylgt getur gengismarkmiði af hvers kyns tagi.

Myntráð gæti verið ágætur kostur þegar vel gengur en ef illa gengur þarf að fjármagna gjaldeyrisforðann með því t.d. að skera niður í velferðarþjónustu. Þó að festing krónunnar við annan gjaldmiðil, hvort heldur er með einfaldri yfirlýsingu stjórnvalda eða myntráði, kynni að hljóma álitlega hefur reynslan sýnt að víðast hvar sem gripið hefur verið til slíkra ráðstafana hafa stjórnvöld fyrr en síðar neyðst til að hverfa frá slíkri tengingu. Slík tenging hefur aðeins gildi að henni fylgi stuðningur frá ríki sem myntin er bundin við. Þau dæmi sem eru um að slíkt hafi tekist vel eru þegar t.d. lönd hyggjast taka upp evru. Þá er mynt þeirra bundin í evrunni í því ferli með stuðningi Evrópska seðlabankans.

Með myntráði tengdu evru, án þess að vera á leiðinni í Evrópusambandið, er myntbandalagið mjög áhættusamt. Því er ég sammála skýrsluhöfundum um að sá valkostur komi ekki til greina.

Þá er aðeins eftir sá valkostur að halda krónunni en búa um hana skárri ramma en nú er. Hugmyndin er sú að gera enn eina tilraunina með krónuna þótt löngu sé ljóst að það mun aldrei ganga að reka svo smáa sjálfstæða mynt nema með ærnum tilkostnaði sem almenningur ber. Hættum því og förum ódýrari leið, sem er að klára samninginn við Evrópusambandið og taka upp evru í kjölfarið.

Getur einhver svarað þeirri spurningu hvað Ísland hafi grætt á því að klára ekki samninginn við Evrópusambandið, sem var rétt á lokasprettinum, og skilja stærstu álitamálin eftir í óvissu? Almenningur græddi augljóslega ekkert. En andstæðingar aðildar geta hins vegar fullyrt áfram að aðildin yrði okkur óhagstæð þó að þeir viti í raun ekkert um það. Enginn þurfti að óttast slæman samning því að slæmur samningur hefði auðvitað verið felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvers vegna ættum við að kasta krónunni og taka upp evru? Í riti Seðlabankans um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum segir í kafla sem ber yfirskriftina Hvaða gjaldmiðil?, með leyfi forseta:

„Eðlilegt er að nálgast valið út frá því að markmiðið sé að lágmarka kostnað sem fylgir því að eiga viðskipti við önnur lönd og draga sem mest úr gengissveiflum gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Út frá þessu sjónarmiði er því nærtækast að horfa til þess hversu mikil viðskipti eru við þau myntsvæði sem koma til greina, sem til lengdar getur haft áhrif á tengsl innlendrar hagsveiflu og hagsveiflu á svæðinu. Einnig skiptir máli hversu stórt svæðið er og hversu algengt er að önnur ríki tengist því. Ábatinn í formi stöðugra gengis verður því meiri sem fleiri gjaldmiðlar tengjast svæðinu. Hversu mikið viðkomandi gjaldmiðlar eru notaðir í uppgjöri alþjóðlegra viðskipta þjóðarinnar og hvernig samsetningu erlendra skulda þjóðarbúsins er háttað kann einnig að skipta máli. Að lokum er mikilvægt að viðkomandi gjaldmiðill sé traustur þannig að peningaleg kjölfesta sé til staðar á myntsvæðinu.

Þegar litið er til allra þessara þátta virðist tenging við eða upptaka evru augljósasti kosturinn, sé á annað borð ákveðið að tengja gengi krónunnar öðrum gjaldmiðli eða að taka hann upp. Evrusvæðið vegur langþyngst í utanríkisviðskiptum þjóðarinnar og erlendum skuldum hennar og er evran algengasta uppgjörsmynt erlendra viðskipta hennar ásamt bandaríkjadal. Evrusvæðið er jafnframt næststærsta myntsvæði heimsins á eftir því bandaríska. Því fylgir tengingu við evruna viðbótarábati, vegna þess að fjöldi annarra ríkja gerir slíkt hið sama eða reynir að draga úr sveiflum gagnvart henni. Tengsl innlendrar hagsveiflu við hagsveiflu evrusvæðisins eru hins vegar takmörkuð. Niðurstöður rannsókna benda þó til þess að slík tengsl aukist jafnan við aðild að myntbandalagi.“

Herra forseti. Ávinningur við aðild að evrusvæðinu eru aukin milliríkjaviðskipti og því hærri þjóðartekjur á mann, aðgangur að stórum fjármálamarkaði án gengisáhættu og þá lægri vextir og hærri þjóðartekjur á mann, stærðarhagkvæmni peningakerfis og meiri samkeppni sem sárlega vantar hér á landi, ákveðinn rammi um hagstjórnina ásamt lausafjárfyrirgreiðslu frá Evrópska seðlabankanum ef þörf krefur, og, herra forseti: Innan ESB er ekki gjaldmiðilskreppa.

Nú segja einhverjir: Já, en krónan bjargaði Íslendingum í hruninu. Ég vil í því samhengi minna á að sá björgunarleiðangur fól í sér að vanda fyrirtækjanna var alfarið velt yfir á íslenskan almenning, öfugt við það sem gerðist í öðrum löndum þar sem atvinnulífinu var falið að glíma við vandann. Lækkun á gengi krónunnar olli hækkun vísitölu neysluverðs sem svo hækkaði lán heimilanna og var séríslenskt fyrirbæri. Í öðrum löndum lentu einstaklingar í vandræðum með húsnæðislán vegna atvinnumissis en sá vandi bættist líka ofan á vanda íslenskra heimila í kreppunni.

Einhverjir myndu segja að við þyrftum að glíma við vandann eins og hann er í dag og getum ekki beðið eftir að því ferli ljúki að ganga í Evrópusambandið. Það er rétt. Eitthvað af tillögunum í skýrslunni sem við ræðum hér er varða styrkari umgjörð um krónuna koma að gagni í þeim efnum. En við komumst aldrei á leiðarenda ef við leggjum ekki af stað í ferðina. Við þurfum að hefja samningaferlið að nýju, ljúka samningnum og bera hann undir þjóðina.

Samkvæmt nýjustu könnun Gallup fyrir Já Ísland vilja töluvert fleiri Íslendingar taka upp evru en halda krónunni, enda er kostnaður við krónuna of íþyngjandi fyrir heimilin í landinu. Verum skynsöm því að það er ódýrara.