149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einmitt í framhaldi af þessu væri áhugavert að velta fyrir sér hversu mikið svona skýrslur og svona mat ætti að fara út í fræðasamfélagið almennt í stað þess að skipaður sé starfshópur upp á verkstjórnina með gerðinni. En alla jafna sé ég þetta sem miklu víðtækara samráð á vísindalegum forsendum. Þó að ég ætli ekki að gera lítið úr faglegum niðurstöðum þessa hóps held ég að það sé heldur engin tilviljun að viðkomandi skýrslugerðarhöfundar séu svona pólitískt tengdir, því miður.

En þá ætla ég að gefa hv. þingmanni tækifæri til að svara spurningunni um húsnæðisliðinn. Ef fer sem horfir, og tilkynningar um verðhækkanir streyma núna inn til Samtaka verslunar og þjónustu samkvæmt frétt RÚV frá því í gær, og ekkert bendir til þess að húsnæðisverð sé að hækka — þannig að í þessari framtíð er það húsnæðisverðið sem (Forseti hringir.) temprar niður verðbólguna en ekki eins og það var áður þar sem (Forseti hringir.) almennt verðlag tempraði verðbólguna. Það verður áhugavert að sjá það í framtíðinni.