149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:55]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Mig langar í seinna andsvari að koma aðeins inn á þau skilaboð sem eru svolítið yfir um og allt í kring í skýrslunni, að lykilatriðið í allri okkar hagstjórn sé í raun það sem höfundar kalla að fara eftir reglunum, að setja sér markmið í hagstjórn og reyna síðan að fara eftir þeim.

Ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála en ég tel að það sé kannski stóra málið að við höfum hemil á hagstjórninni. Þannig getum við sannarlega bætt kjör almennings í landinu, þ.e. með því að falla ekki eilíflega í einhvern freistnivanda eða grípa til skyndilausna. Þannig náum við í raun miklu frekar árangri. Það er kannski stóri lærdómurinn sem skýrsluhöfundar eru að koma á framfæri við okkur.