149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

brottfall laga um ríkisskuldabréf.

210. mál
[15:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið og tek undir með honum að það eru náttúrlega aðrar aðstæður og skuldabréfamarkaðurinn er allt annar en var á þessum tíma. Ég var að leita að þessu í gegnum vef Alþingis hvort hægt væri að finna einhverjar hugmyndir að baki þessu ákvæði sem sett var 1924, ég fann það ekki, en við þekkjum það að menn voru varfærnari á þessum tíma en við sáum t.d. í aðdraganda hrunsins o.s.frv., þegar kom að fjármálum.

Það er þá þessi möguleiki fyrir hendi að gefa út skuldabréf til allt að 100 ára. Mér finnst að það sé svolítið djarft teflt í þeim efnum og velti fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra, ég kem kannski inn á það á eftir í stuttri ræðu, að rýmka þessa heimild eitthvað,. segjum kannski í 30–35 ár. Ég held að það komi fram í greinargerð með frumvarpinu að ríkið sé að gefa út skuldabréf til 30 ára. Það er kannski spurning um að við myndum vera með mörkin einhvers staðar á þeim nótum heldur en að hafa þetta alveg opið. Ég hef ákveðnar efasemdir með það, en ég þakka hæstv. ráðherra.