149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[17:00]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að fagna því að þetta mál er komið fyrir þingið. Það er orðið löngu tímabært eftir langt ferli þar sem heildarendurskoðun núverandi laga á sér langan aðdraganda en er nú komin hingað inn. Ég held að það sé ákaflega gott.

Málið er víðtækt og snertir marga fleti. Mig langar til að tæpa á nokkrum atriðum í þessu máli. Í ljósi þess að átt hefur sér stað mikið samráð og borist hafa fjöldamargar umsagnir — ef ég tók rétt eftir hafa nú þegar borist alls 52 umsagnir við frumvarpinu — reikna ég með því að það fái góða umfjöllun í nefnd hjá þinginu. Þetta eru atriði og mál sem við þurfum að halda þétt og vel utan um og eiga gott samtal og samráð um, eins og allt sem okkur er mikilvægt. Ef ég má vitna í orð hæstv. ráðherra er þetta mál sem allir þekkja og allir hafa skoðun. Við erum öll sérfræðingar, við erum öll ferðalangar, við ferðumst öll um og höfum mikla skoðun á því hvernig við gerum það.

Við ferðumst reyndar misjafnlega mikið eftir vegum landsins. Sumir eru hér bara á suðvesturhorninu þar sem eru allt aðrar aðstæður en úti í hinum dreifðari byggðum þar sem við erum sum vanari að keyra. Við höfum ýmis sjónarhorn á þetta mál. En það er líka gott og þannig á það að vera.

Það hefur orðið allt of mikið tjón í umferðinni. Það hafa of margir látið lífið eða örkumlast í umferðinni. Það er ekki ásættanlegt. Við höfum náð árangri varðandi öryggismálin þegar kemur að banaslysum og öðrum slysum á sjó og einnig í kringum flugið. En við þurfum að gera betur í umferðinni og ég vona að þetta verði þáttur í því.

Ýmislegt hefur verið gert og við höfum náð árangri, það sýna mælikvarðar. Það hefur verið mælt og lagðar fram kannanir á því þannig að það er mjög jákvætt.

Markmiðið í frumvarpinu er víðtækt og stórt og tekur mið af öryggisþættinum. Mig langar til að fá að lesa það hér upp, með leyfi forseta:

„Markmið laganna er að vernda líf og heilsu vegfarenda með auknu umferðaröryggi þar sem jafnræðis er gætt milli vegfarenda, óháð samgöngumáta, og tillit tekið til umhverfissjónarmiða við skipulagningu umferðar.“

Enda er vinnulag við uppbyggingu vega og umhverfis þeirra orðið allt annað en var fyrir ekki svo löngu síðan. Við höfum fjölbreyttari ferðamáta og við höfum fleira fólk á vélknúnum, litlum ökutækjum, hjólum og öðru slíku, og svo erum við með gangandi vegfarendur líka sem taka þarf tillit til.

Ég tæpi á örfáum atriðum, ég ætla ekki að hafa þetta mál langt, en eitt er að skilgreina hugtakið göngugötu. Það er mjög mikilvægt þegar fleira fólk er á vélknúnum mótorhjólum og litlum léttum farartækjum inni á svæðum sem ætluð eru gangandi vegfarendum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum skýrar reglur um það, að gangandi vegfarendur séu líka varðir fyrir því. Þetta getur skapað hættu víða.

Svo er eitt svolítið skemmtilegt dæmi. Það eru ekki svo óskaplega langt síðan þegar ekki þótti voðalega mikilvægt að vera með hjálma þegar fólk var á reiðhjólum. Nú sér maður ekki barn á hjóli úti á götu eða annars staðar nema með hjálm. Það er gott. Tekist hefur með upplýsingum og áróðri og samfélagslegu átaki að koma því inn. Hér verður það lögfest að börn eigi að vera með hjálm. Ég held að það sé ágætt og það er gott að þetta varð til neðan frá, þ.e. var ekki skipun frá yfirvöldum, og þykir orðið sjálfsagt mál. Þetta er bara grundvallaröryggisregla og það er gott að við festum hana í lög.

Það verður kannski líka meiri hvatning til þeirra sem fullorðnir eru. Þó er miklu algengara að fólk noti hjálma og satt best að segja verður maður stundum hissa þegar maður kemur til útlanda og sér fólk algerlega óvarið og hjálmlaust. Þarna höfum við náð árangri og það er gott. Við skulum fagna því..

Svo komum við að vímuefnunum og vínandamagni í blóði. Það er gott skref sem verður stigið hér, ef frumvarpið verður samþykkt, að við ætlum að minnka leyfilegt áfengismagn í blóði ökumanna. úr 0,5 niður í 0,2‰. Þarna er um að ræða skýr skilaboð um að við samþykkjum ekki akstur og áfengisdrykkju í sömu athöfninni, ef svo mætti segja. Ég held að þetta sé alveg ljómandi gott skref og skýrt. Auðvitað eigum við ekki aka drukkin, það liggur alveg ljóst fyrir.

En svo er annað. Talað er um vanhæfismörk vegna ýmissa lyfja. Það var athyglisvert framlag frá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni varðandi lögleg og ólögleg vímuefni. Ég held að skilaboðin þurfa að vera skýr. Undir áhrifum ökum við ekki. Við setjumst ekki undir stýri nema allsgáð, sama hvort við höfum neytt vímuefna í fljótandi formi, í efna- eða töfluformi eða hvernig sem það er. Það á að liggja alveg ljóst fyrir. Ég held að það sé alveg prýðisgott ráð.

Svo er náttúrlega farið að taka fyrir snjalltækin í nútímanum. Þau eru orðin miklu algengari en áður, alla vega eftir 1987 þegar þau lög tóku gildi sem við búum við núna. Ég held að það sé bara ágætt að við tökum á þessu og allt sé skýrara varðandi það.

Við erum ekki bara að tala um síma heldur fleiri tegundir snjalltækja og tóla sem eru okkur svo nauðsynleg og við þurfum eilíft að vera að gaufa í. Maður á að vera ófullur og ekki fikta í símanum undir stýri. Það er þannig sem við eigum að gera, er það ekki?

En svo er eitt alveg nýtt, það varðar sjálfakandi ökutæki. Mörgum þykir það vera í fjarlægri framtíð en sú er ekki raunin. Hér er að finna nýmæli varðandi þau tæki og er það til marks um að við horfum til framtíðar. Þetta opnar leið fyrir ný tæki og opnar möguleika á að slík tæki verði prófuð við íslenskar aðstæður. Það er mikilvægt. Aðstæður á Íslandi eru oft sérstakar.

Það er mjög mikilvægt að við tökumst á við þetta og að vel takist til við endurskoðunina því að þetta er lagabálkur sem snertir okkur öll, það verður ekki of oft tekið fram, og alla þá sem hér dvelja. Við þurfum að hafa skýra ramma, skýrar reglur, en við þurfum líka að vera í nútímanum og vita hvernig hann er og raunar að ímynda okkur framtíðina, hvað tekur við þótt við séum kannski ekki í færum til þess.

Við setjum okkur háleit markmið og við eigum að setja okkur það markmið að standa jafnfætis þeim þjóðum sem fremstar eru í öryggismálum varðandi umferð. Það er löngu tímabært að við stígum þetta skref. Ég vona að frumvarpið gangi vel í gegnum þingið og að hér verði málefnaleg umræða og góð meðferð í nefndinni. Það er löngu tímabært að við setjum hér ný lög sem við þurfum að endurnýja því að sannarlega búum við lög frá árinu 1987. En nú eru breyttir tímar og mikil þróun hefur átt sér stað.