149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[20:19]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að láta það eiga sig í þetta sinn að fara ofan í söguskoðun hæstv. ráðherra á því nákvæmlega hvernig þessi löggjöf er komin til. Mig langar bara að spyrja beint út í löggjöfina sjálfa eins og hún stendur og læt öðrum eftir að láta reyna á söguskoðun.

Nú hefur hæstv. ráðherra ítrekað haldið því fram að vinna hafi hafist við endurskoðun á þessum lögum í maí í fyrra. Það kemur líka fram í greinargerð frumvarpsins. Mér finnst þess vegna svolítil vonbrigði að sjá að í frumvarpinu er hvergi víkkað út það net sem þessi skilyrði ná yfir, þ.e. að fólk megi ekki hafa brotið af sér til að geta sinnt ákveðnu ábyrgðarhlutverki.

Um það var líka mikið rætt í þessari umræðu að nálgun löggjafarinnar á Íslandi gagnvart því hverjir þyrftu að uppfylla skilyrði um óflekkað mannorð væri helst til gamaldags og sneri aðallega að þeim sem hefðu eitthvað með fjárhlutverk gagnvart ríkisstjórn stjórn að gera, þ.e að þeim sem færu með peninga ríkisins en ekki þeim sem bæru ábyrgð gagnvart börnum eða öðrum.

Hæstv. fjármálaráðherra, þáv. hæstv. forsætisráðherra, tók dæmi um að sérstaklega þyrfti að skoða kennara í þessu og það að fara ætti í heildarendurskoðun á miklu fleiri starfsstéttum var tekið sem aðalástæðan fyrir því að ekki væri hægt að ráðast í breytingar á lögum um lögmenn og skilyrði fyrir lögmennsku strax. Það þyrfti að ná yfir miklu víðara net.

Ég sakna þess að lögráðamenn séu inni í þessum pakka. Ég sakna þess líka að ekki hafi verið tekið tillit til þess að þegar búið er að breyta kjörgengi til sveitarstjórna eigi það líka við um kjörgengi til barnaverndarnefnda, en um kjörgengi til barnaverndarnefnda gildir kjörgengi til sveitarstjórna. (Forseti hringir.) Er það svo núna, ef frumvarpið verður að lögum, að einstaklingar geta verið kjörnir í barnaverndarnefnd um leið og afplánun eftir glæp er lokið?