149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[20:50]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og yfirferð. Það er einmitt þetta með að fá lögmannsréttindin sín aftur og einnig að fá lögmannsréttindin sín í fyrsta sinn eftir að hafa framið alvarlegan glæp, hvort sem viðkomandi hafi lokið afplánun eða ekki, það má velta fyrir sér þessu með starf lögmannsins sem á að gæta hagsmuna brotaþola í ýmsum málum.

Við erum auðvitað svolítið upptekin af kynferðisbrotunum en það eru fjölmörg önnur réttindagæslumál sem um ræðir sem lögmenn taka að sér og skipta máli. Manni getur líka verið falið að gæta réttinda þeirra sem hafa misst sjálfræði sökum vanþroska. Auðvitað viljum við ekki skerða réttindi borgaranna umfram það sem nauðsynlegt er, en er starfsleyfi eins og lögmannsréttindi borgaraleg réttindi? Þetta er auðvitað bara starfsleyfi. Við þurfum að velta því fyrir okkur af því að við getum ekki vænst þess að fá að ganga inn í hvaða starf sem er. Það þarf að uppfylla ákveðin skilyrði og löggjafinn getur hreinlega tekið ákvörðun um það. Getur verið að þarna sé ákveðinn hópur, lögmenn, sem þurfi bara að vera með hreint borð, megi ekki vera með ákveðinn hala? Það má alveg hugsa sér að það séu tiltekin (Forseti hringir.) brot sem viðkomandi má ekki hafa framið, aldrei, til að geta öðlast ákveðin réttindi.