149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[21:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra málið og framsöguna og þá umræðu sem hér hefur átt sér stað vil ég sömuleiðis þakka. Af því að ráðherra kallaði eftir efnislegri afstöðu til málsins tel ég rétt að taka fram, eins og nokkrir þingmenn hafa gert, að mér þykir brýnt að við náum að klára málið í einhverri mynd eins og ráðherra komst að orði, af því að ef eitthvað er orðið ljóst eftir umræðu kvöldsins er það það að í mörg horn er að líta í jafn viðamiklu máli.

Ég kveð mér hljóðs aðallega vegna þess að ég hjó eftir einu sem ráðherra nefndi í máli sínu, að ég held tvisvar, varðandi önnur ráðuneyti en dómsmálaráðuneyti. Er það virkilega svo að ráðuneyti dómsmála hafi fengið það verkefni að samhæfa viðbrögð Stjórnarráðsins til þess að koma hér fram með heildarlög um afnám uppreistar æru úr lögum en hafi ekki fengið svör frá í það minnsta tveimur ráðuneytum varðandi þá kafla sem undir þau heyra?

Ég verð að viðurkenna að mér þykir þetta mjög undarlegt og get lofað hæstv. ráðherra að allsherjar- og menntamálanefnd mun ekki sætta sig við þögn frá þessum ráðuneytum. Við köllum eftir umsögnum frá þeim sem málið snertir og ætlumst til að fá svör frá ráðuneytum sem hingað eiga að koma til að svara.

Mig langar því að spyrja ráðherrann hvort hægt sé að telja þetta ásættanlegt að hér fái eitt ráðuneyti verkefni fyrir þau öll og standi síðan bara aleitt úti á mörkinni og fái ekki þá aðstoð sem þarf til að klára þetta mál svo vel sé.