149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[21:33]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þótt oft megi ætla annað af umræðunni í þessum þingsal þá bera menn mikla trú til dómsmálaráðuneytisins og ég er svo sem ekkert hissa á því. En svo það sé áréttað þá var það kannski ekki þannig að dómsmálaráðuneytinu hafi verið svarað með þögninni einni saman, heldur var það niðurstaða allra sem fengu ósk um samráð eða tillögu eða ósk um ábendingar að mögulegt væri að koma á framfæri við dómsmálaráðuneytið tillögum um lagabreytingar, að það færi best á því að dómsmálaráðuneytið legði línurnar í þessu og breytti framkvæmdinni eins og dómsmálaráðuneytið lagði reyndar upp með að gera, að orðalaginu væri breytt þannig að í raun væri efnislega niðurstaðan óbreytt, þ.e. það væri áfram miðað við fimm ára tímamark eftir afplánun dóms og þá fengju menn bara sjálfkrafa þessi réttindi. En áður var það þannig að menn höfðu þurft að fá uppreist æru sem hafði verið veitt sjálfkrafa.

Svo ég taki upp hanskann fyrir önnur ráðuneyti og jafnvel hagsmunasamtök og fagfélög var það ekki þögnin ein sem mætti starfsmönnum ráðuneytisins, heldur það að mönnum finnst kannski betur fara á því að menn leggi upp með að hafa einhvern útgangspunkt og svo geti þeir kannski í framhaldinu unnið það hver með sínu nefi eins og það er kallað. Ég á ekki von á öðru en að allir sinni því kalli hv. allsherjar- og menntamálanefndar og veiti umsagnir eða leiðbeiningar eða komi með ábendingar um hvað megi betur fara. Ég eins og hv. þingmaður ætlast auðvitað líka til þess í jafn mikilvægu máli og þessu.