149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ingibjörg H. Bjarnason var fyrst kvenna kjörin á þing. Það var árið 1922. Hún sagði, eftir að hún lauk sínu starfi hér, með leyfi forseta:

„Fyrstu konurnar, brautryðjendurnir, verða auðvitað fyrir ýmsu hnjaski, aðeins vegna þess að þær eru konur — en slíkt má ekki setja fyrir sig. Þegar konum fjölgar á Alþingi Íslendinga hverfur það, að ráðist sé á þær sérstaklega af því að þær eru konur.“

Ingibjörg hafði skýra sýn á framtíðina og hún gerði sér grein fyrir því að lykillinn að jafnrétti, jafnrétti kynjanna og jafnrétti í þjóðfélaginu almennt, var menntun. Hún hafnaði því að lögð væri áhersla á að mennta konur til að sinna heimilinu. Hún lagði áherslu á það að konum stæði til boða menntun sem gæfi þeim möguleika á að taka að fullu þátt í vinnumarkaðnum.

Það eru konur eins og Ingibjörg H. Bjarnason, brautryðjendur og eldhugar, sem hafa lagt grunninn að því hversu langt við höfum náð í jafnréttismálum og hafa lagt grunninn að því að framtíð minna dætra og möguleikar þeirra eru meiri og allt aðrir en ömmur þeirra höfðu. Fyrir það ber að þakka og ég hygg að við eigum hér í þessum þingsal að halda oftar og betur á lofti þeim sem ruddu brautina til jafnréttis. Að öðrum ólöstuðum hygg ég að Ingibjörg H. Bjarnason eigi sinn sess og við eigum að minnast þeirra starfa og þeirra hugsjóna sem hún hafði.

Lykillinn að öllu jafnrétti, kynjajafnrétti sem og öðru, er menntun.