149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

jafnréttismál.

[11:00]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Við fögnuðum því í gær að 43 ár eru liðin frá tímamótum í jafnréttisbaráttunni á Íslandi, fyrsta kvennafrídeginum, og vorum um leið minnt á mikilvægi þess að halda þessari baráttu áfram. Hér erum við áfram með verulegan kynbundinn launamun, hér erum við með kynbundið ofbeldi, sem er mikil meinsemd í íslensku samfélagi, og fjölda þátta sem við þurfum að huga betur að í jafnréttismálum.

Það kom því dálítið á óvart þegar hæstv. dómsmálaráðherra lýsti því yfir að þetta væri allt saman eiginlega á misskilningi byggt með þennan kynbundna launamun, hann væri miklu minni en af væri látið, konur hefðu sennilega farið allt of snemma heim í gær, ef það má marka. Það er dálítið áhugavert í þessu samhengi að horfa á að auðvitað er þetta rétt, hér eru tvær tölur, 16% óleiðréttur launamunur og u.þ.b. 5% svokallaður leiðréttur launamunur. Er hann merki um góðan árangur í jafnréttismálum? Nei, þegar kemur að óleiðrétta launamuninum erum við fyrir neðan miðja deild í launamun kynjanna, vel fyrir neðan miðja deild. Við erum með kynskiptari vinnumarkað en gengur og gerist annars staðar, við erum með mun færri konur í stjórnunarstöðum en gengur og gerist annars staðar, við erum með mun meiri launamun á milli hefðbundinna kvennastétta og hefðbundinna karlastétta en gengur og gerist annars staðar. Ekkert af þessu er merki um góðan árangur í jafnréttismálum. Og því velti ég fyrir mér, af því að ég veit að hæstv. forsætisráðherra er góður og gegn talsmaður aukins jafnréttis, mikill femínisti, hvort þetta endurspegli metnað ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Það er auðvitað töluverður munur á því hvort við erum að reyna að loka 5% gati eða 16% gati. Það er algjör grundvallarmunur.