149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:30]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir þeirra framlag hér. Við búum svo vel að eiga góða og ítarlega skýrslu vísindanefndar 2018 um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra hér á landi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hlýnun jarðar er óumdeilanleg og benda margar athuganir til breytinga frá því um miðbik síðustu aldar sem eru fordæmalausar hvort sem litið er til áratuga eða árþúsunda. Lofthjúpurinn og heimshöfin hafa hlýnað, dregið hefur úr magni og útbreiðslu snævar og íss, auk þess sem sjávarborð hefur hækkað og styrkur gróðurhúsalofttegunda aukist.“

Þarna kemur líka fram að sýrustig sjávar hafi hækkað um eins og það heitir 0,1 sýrustig frá iðnbyltingu og ummerki þess á lífríki eru þegar merkjanleg.

Ég tel mikilvægt sem þarna segir um nauðsyn á rannsóknum, viðbúnaði og aðlögun. Af hálfu vísindanefndar hefur verið bent á að umtalsverðar afleiðingar loftslagsbreytinga á Íslandi verði ekki umflúnar. Þetta eykur þörf á vöktun og rannsóknum á ýmsum þáttum náttúrufars. Það er mikið verkefni að ljúka öflun grunnupplýsinga um náttúrufar landsins og efla langtímavöktun á umhverfisþáttum og lífríki hafs og lands.

Ég vil vekja sérstaklega athygli á því sem kemur fram í þessari ágætu skýrslu um rannsóknir. Það er tíundað mjög ítarlega, en það er kannski ástæða til þess að vekja sérstaklega athygli á því að efnahagsleg og samfélagsleg áhrif (Forseti hringir.) loftslagsbreytinga á hina ýmsu geira íslensks samfélags hafa lítt verið rannsökuð og nauðsynlegt að bæta úr því sem og svo mörgu öðru á þessu sviði.