149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[17:39]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gaman að fólk fær umsagnir frá fyrri þingum um málið. Þær eru alveg ágætar, sérstaklega þær frá ASÍ og Samtökum atvinnulífsins, þeim samtökum sem þetta frumvarp og þessi lög ná ekki yfir. Fleiri umsagnir bárust, þetta voru neikvæðu umsagnirnar og Félag atvinnurekenda var líka á móti þessu, en allar aðrar voru mjög fylgjandi málinu. Ein af umsögnunum sem barst var frá Félagi kvenna í atvinnulífinu sem benti á að rétt væri að aðilum vinnumarkaðarins yrði tryggður ákveðinn aðlögunartími að þeim breytingum sem mælt væri fyrir um í frumvarpinu. Þannig yrðu meiri líkur til þess að styttri vinnutími yrði að veruleika hér á landi. Taka flutningsmenn undir það, segir hérna í greinargerð, og leggja því til að lögin taki gildi 1. janúar 2021. Þar með er gert ráð fyrir lengri aðlögunartíma en í fyrri frumvörpum.

Það má vel vera að þessi tími sé ekki alveg réttur upp á hvernig kjarasamningar raðast í næstu lotu eða eitthvað þvílíkt. Nefndin kemur væntanlega til með að skoða hvernig það virkar þannig að ég sé ekki þetta vandamál sem hv. þingmaður bendir á. Að auki er það réttur skilningur hjá honum að ekki er gert ráð fyrir sömu launum fyrir þessa styttri vinnu, einmitt t.d. út af því að gefinn er aðlögunartími til að taka ákvæðið inn í kjarasamninga.