149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[18:16]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hv. þingmaður minnti mig kannski einmitt á ástæðuna fyrir því að mig langaði mjög gjarnan til að taka þátt í umræðunni þegar hann mælti fyrir málinu — þá var klukkan rétt að ganga átta, eitt kvöldið í síðustu viku, að mig minnir — en ég var ekki í þeirri aðstöðu að geta sett mig á mælendaskrá þá. En það var einmitt þetta sem hv. þingmaður var að lýsa og ég hefði gjarnan viljað fara í andsvar við hann um og átta mig betur á, þ.e. að þótt við værum að breyta lögunum hefði það samt ekki áhrif á aðila því að þeir þyrftu í raun ekki að fara eftir því. Og þá velti ég fyrir mér: Til hvers eru lögin? Þar held ég að grunnspurningin sé og ég vil gjarnan hvetja hv. velferðarnefnd, ætli það sé ekki hún sem fær málið til sín, til að skoða hvort það væri kannski bara lausnin að fella niður þessi lög.

Hv. þingmaður vísar í að þetta sé í rauninni ekki launahækkun. Í greinargerðinni, ef ég skil hana rétt, er samt verið að tala um að fólk myndi þá halda laununum sínum en það þyrfti að sýna minna vinnuframlag. Ég gat ekki skilið það öðruvísi. Hv. þingmaður talaði um að þetta sé í rauninni ekki inngrip. En það er nú samt þannig að þeir aðilar sem eru úti á markaðnum nota það orð, ég held að ég fari örugglega rétt með, í umsögnum sínum að um sé að ræða ótímabært inngrip í samningaviðræður þeirra á þeim tíma sem þetta var lagt fram og umsagnir fengust, sem er kannski ekki alveg sami tími og við erum að horfa fram á núna þegar við vitum að eitt stærsta verkefni vetrarins verður einmitt það að þeir aðilar nái saman og hvað það skiptir okkur öll gríðarlega miklu máli.