149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[19:07]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, og búnaðarlögum, nr. 70/1998. Flutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Steindór Valdimarsson, Smári McCarthy, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson.

Í einföldu máli er markmið með frumvarpi þessu að auka frelsi og sjálfræði framleiðenda búvara til markaðssetningar á afurðum sínum á innlendum og erlendum mörkuðum. Í því felst m.a. sú aðgerð að afnema sérreglu búvörulaga sem gildir um mjólkuriðnaðinn hvað varðar undanþágur frá samkeppnislögum og draga úr afskiptum ríkisvaldsins af verðlagningu, framleiðslu og vinnslu búvara.

Það er auðvitað umhugsunarefni þegar við ræðum þessi mál að matvælaverð hér á landi er umtalsvert hærra en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Fjögurra manna fjölskylda má vænta þess að greiða um 80.000 kr. meira fyrir mat á mánuði hverjum en sambærilegar fjölskyldur á hinum Norðurlöndunum. Það samsvarar því að þessi sama fjölskylda þurfi að hafa liðlega 140.000 kr. í laun til viðbótar á mánuði til að standa undir bara þessum viðbótarkostnaði við matvæli. Þegar við berum saman matvælaverð hér og á hinum Norðurlöndunum sjáum við strax að stærstur hluti þessa verðmunar liggur einmitt í þeim vörum sem hvað minnst samkeppni er um hér á markaði, þ.e. innlendum búvörum, kjöti og mjólk. Á sama tíma veitum við umtalsverða styrki til landbúnaðar sem er vel. Það er mikilvægt að styðja við þessa mikilvægu atvinnugrein. Þannig verjum við liðlega 16 milljörðum árlega í beina styrkveitingu til landbúnaðarins og sennilega öðru eins í óbeina styrkveitingu í formi aðflutningsgjalda, tolla eða annarra takmarkana á frjálsum innflutningi á landbúnaðarvörum.

Ég held að það sé mikilvægt að taka skýrt fram áður en lengra er haldið í þessari umræðu að það er ekki ætlan flutningsmanna þessa frumvarps að vega að bændum hér á landi. Þvert á móti teljum við einmitt að aukin samkeppni, aukið frelsi bænda sjálfra til framleiðslu, vinnslu og markaðssetningar á eigin afurðum geti skipt miklu um framtíðarþróun landbúnaðar hér á landi, að aukin samkeppni með landbúnaðarvörur á innlendum markaði með stuðningi ríkisins, líkt og verið hefur, skapi aukna framleiðni í greininni líkt og við þekkjum úr öðrum atvinnugreinum þar sem frjáls samkeppni ríkir og skapi bændum sjálfum miklu fleiri tækifæri bæði til vinnslu og markaðssetningar á vörum sínum, hvort heldur er hér á landi eða erlendis.

Það er áhugavert að bera saman þær atvinnugreinar hér á landi þar sem við höfum reist verulegar skorður við frjálsri samkeppni, sem má benda á bæði í mjólkuriðnaði og kjötiðnaði þar sem við höfum bæði undanþegið greinarnar að einhverju marki samkeppnislögum, þar sem höfum leyft verulegt samstarf afurðastöðva, í raun samráð í skilningi samkeppnislaga, og sameiginlegt skipulag markaða, og svo aftur samanburðinn við aðra þætti, það sem maður myndi kalla landbúnað, t.d. grænmetisbændur. Jafnvel mætti tala um bjórbændur hér á landi því að mikil gróska hefur verið í framleiðslu á innlendum bjór og þróun á innlendum bjór úr innlendum hráefnum, innlendum landbúnaðarafurðum. Þar hefur orðið mikil og hröð vöruþróun þó að það sé almennt séð ekki áfallalaust, eins og í tilfelli grænmetisbænda sem þurftu að laga sig að gerbreyttu samkeppnisumhverfi með afnámi innflutningstakmarkana, þeirra innflutningstolla sem giltu hér fyrir árið 2004, ef ég man rétt, en fengu í staðinn aukinn beinan stuðning. Þar hefur orðið veruleg vöruþróun og í raun verður ekki annað séð en að þessari grein hafi tekist ágætlega upp með að takast á við breytt samkeppnisumhverfi á þessum tíma.

Þetta er í takt við það sem við höfum upplifað hér í fjölmörgum öðrum atvinnugreinum í gegnum árin og áratugina. Íslenskur iðnaður fór í gegnum verulegar umbreytingar með inngöngu okkar í EFTA og afnám þeirra hafta eða innflutningstakmarkana sem þá giltu gagnvart iðnaðarvörum. Upp úr því spratt hins vegar öflugur og gróskumikill innlendur iðnaður, en hann var vissulega breyttur frá því sem áður hafði þekkst. Samkeppni er ekki ógn við innlenda framleiðslu, en hún er vissulega áskorun í mörgum tilfellum. Hún krefst þess að við aukum framleiðni, að við finnum leiðir til að gera hlutina hagkvæmari í dag en í gær, að við finnum leiðir til vöruþróunar sem mæti þá þörfum neytenda með betri hætti en við höfum áður náð og svo mætti lengi telja.

En eitt er alveg sammerkt þegar kemur að samkeppninni, við sjáum verulegan mun á verðþróun þeirrar vöru eða þjónustu yfir lengri tíma sem bundin er frjálsri samkeppni á markaði og þeirrar vöru eða þjónustu sem háð er verulegum samkeppnistakmörkunum. Við getum nefnt þar þætti eins og matvælaframleiðsluna, póstþjónustu og fleira slíkt þar sem við höfum reist verulegar skorður við frjálsri samkeppni og við sjáum að verðlag hækkar á þessum vörum eða þjónustuliðum langt umfram almenna verðlagshækkun.

Þannig er það t.d. þegar kemur að mjólkuriðnaði hér á landi að þrátt fyrir að við höfum í lögum leyft mjög mikið samstarf, jafnvel samráð, og hagræðingu í greininni, til hagsbóta að maður myndi ætla fyrir bæði neytendur og framleiðendur, bændur sjálfa ekki hvað síst, hefur verðþróun á mjólk frá því að þau lög tóku gildi, árið 2004, verið talsvert umfram hækkanir á vísitölu neysluverðs án húsnæðis á sama tímabili, talsvert umfram almennar hækkanir á matvöru hér á landi, t.d. langt umfram hækkanir á almennri drykkjarvöru svo dæmi sé tekið. Þessar samkeppnistakmarkanir hafa í það minnsta ekki skilað neytendum neinum ávinningi.

Ef við horfum aðeins á frumvarpið sjálft verður auðvitað að horfa til þess að í gildandi lögum hafa bændur mjög sérstaka stöðu sem helst verður líkt við stöðu launþega í þjónustu afurðastöðva og hins opinbera. Til að stuðla að bættum kjörum bænda þarf að búa til regluverk sem gerir þeim kleift að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir, sem eru verulegar skorður settar við í dag, og þannig verði bændum gert fært að starfa sem atvinnurekendur og njóta kosta þess að reka bú sín á opnum markaði. Í frumvarpi þessu er því lagt til að verðlagsnefnd búvara og framkvæmdanefnd búvörusamninga verði lagðar niður og þannig stuðlað að jafnræði bænda á markaði og að verðmyndun verði í samræmi við almenn markaðslögmál. Það er dálítið áhugavert að velta fyrir sér á hvaða öðrum mörkuðum okkur dytti í hug að taka upp fyrirkomulag eins og verðlagsnefnd búvara hefur. Þætti okkur við hæfi t.d. á eldsneytismarkaði eða matvörumarkaði að við værum með einhvers konar verðlagsnefnd um matvælaverð út úr verslunum þar sem hagsmunaaðilar, t.d. rekstraraðilar verslana og innflytjendur á matvælum, settust saman yfir það hvernig ætti að verðleggja vöruna til neytenda? Það held ég að okkur þætti afleit hugmynd á flestum öðrum mörkuðum. Ég held að í þessu tilfelli sé verðlagsnefnd búvara löngu orðin að barni síns tíma og mikilvægt að huga að nýju fyrirkomulagi.

Jafnframt er lagt til að felld verði niður heimild til að gera fyrirframákveðnar framleiðnikröfur til afurðastöðva eða um einstakar framleiðsluvörur.

Enn fremur er lagt til að felld verði niður heimild afurðastöðva samkvæmt 71. gr. búvörulaga til að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli afurða fyrir verðmyndun mjólkur og mjólkurafurða. Ákvæðið var lögfest með lögum nr. 85/2004, um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993. Á sama tíma einkenndi fjárhagsvandi flest svið landbúnaðarins sem aðallega var kominn til vegna óhagstæðra rekstrareininga og lögbundinnar skyldu afurðastöðva og mjólkuriðnaðarins til að jafna landsbundinn aðstöðumun einstakra afurðastöðva og fjarlægð frá stærstu mörkuðum landbúnaðarvara. Afurðastöðvum í mjólkuriðnaði hefur fækkað verulega og mikil hagræðing átt sér stað í þau 13 ár sem ákvæðið hefur staðið í búvörulögum. Til að tryggja samkeppni á mjólkurmarkaði og stuðla þannig að nýsköpun og vöruþróun er nauðsynlegt að vinnsluaðilum sé tryggður aðgangur að hrámjólk/ógerilsneyddri mjólk í lausu máli.

Hafa undanþágur frá samkeppnislögum samkvæmt búvörulögum verið umdeildar og fyrir liggja fjölmörg álit Samkeppniseftirlitsins vegna beitingar og túlkunar á þeim. Með þessu frumvarpi er lagt til að afnema veigamiklar undanþágur frá samkeppnislögum sem um hafa gilt sérákvæði. Verði frumvarpið að lögum er verið að leysa helstu ágreiningsefni sem uppi hafa verið vegna beitingar og túlkunar á undanþágum frá samkeppnislögum í búvörulögum.

Þá er lagt til að felld verði brott heimild til verðjöfnunar samkvæmt 85. gr. A búvörulaga í samræmi við ákvörðun ráðherrafundar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í desember 2015 um að afnema útflutningsbætur.

Meginefni frumvarpsins má segja að skiptist í tvo kafla. Í I. kafla eru lagðar til breytingar á tilgangi búvörulaga þar sem skerpt er á mikilvægi frjálsrar samkeppni í landbúnaði. Í kaflanum er jafnframt mælt fyrir um að framleiðendur búvara fari að meginreglum með eigið fyrirsvar við gerð samninga á grundvelli laganna en þeim sé þó heimilt að annaðhvort fela Bændasamtökum Íslands að fara með fyrirsvar sitt eða stofna önnur samtök í þeim tilgangi. Þá er fellt brott ákvæði laganna um að samningar skuli vera bindandi fyrir framleiðendur viðkomandi búvara, hvort sem þeir eru félagar í Bændasamtökum Íslands eða standa utan þeirra, og í staðinn kveðið á um að samningar á grundvelli laganna séu aðeins bindandi fyrir þá framleiðendur sem teljast aðilar að hverjum samningi fyrir sig, þ.e. framleiðendur eða bændur sjálfir hafi fullt samningsfrelsi með eigin afurðir.

Í kaflanum eru lagðar til ýmsar orðalagsbreytingar á lögunum sem miða að því að jafna stöðu allra búvöruframleiðenda, hvort sem þeir tilheyra Bændasamtökum Íslands, öðrum samtökum eða standa utan samtaka. Þá eru felld brott ákvæði um verðlagsnefnd búvara, sem fyrr segir, og framkvæmdanefnd búvörusamninga. Tilgangurinn með því er að draga úr miðstýringu verðmyndunar og auka sjálfstæði bænda og framleiðenda á markaði. Með því að leggja niður verðlagsnefnd búvara verður einnig unnið að því að gera styrkjakerfi landbúnaðarins gagnsærra. Samhliða breytingunni er jafnframt rétt að koma á fót beinum styrkjum til bænda sem stuðli að aukinni nýsköpun og betri nýtingu lands og gæða.

Í II. kafla frumvarpsins er síðan lagt til að ákvæði um framkvæmdanefnd búvörusamninga verði fellt brott og lagðar til breytingar sem draga úr sérstöðu Bændasamtaka Íslands sem fyrirsvarsaðila búvöruframleiðenda í samningaviðræðum og samskiptum við ríkið.

Í 14. gr. frumvarpsins er enn fremur kveðið á um aukinn stuðning Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og ríkissjóðs við umhverfisvernd, nýliðun, skógrækt, lokun framræsluskurða, gerð smávirkjana og þróun á sviði ferðaþjónustu.

Verði frumvarp þetta að lögum er rétt í framhaldinu að hefja vinnu við sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS rannsóknasjóðs í sameiginlegan og öflugan Matvælasjóð. Slík breyting yrði til þess fallin að spara kostnað við yfirstjórn og yfirbyggingu sjóðanna sem nýta mætti beint í styrki til nýsköpunar í matvælageiranum, ekki síst í nýsköpun hjá bændum.

Umræddar breytingar eru viðamiklar en að mati flutningsmanna frumvarpsins til þess fallnar að bæta hag íslenskra bænda og stuðla að heilbrigðri samkeppni á markaði, bæði bændum og ekki síður neytendum öllum til heilla.