149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[20:01]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þessum stuðningi og nú vona ég að við getum orðið samferða, ég og hv. þingmaður, í því að afnema þá verðtolla og magntolla sem eftir eru. Það er búið að taka heilmikið til í þessum efnum en eftir er slatti af tollum. Við skulum bara afgreiða það saman. Afnemum alla tolla af íslenskum landbúnaði. Ég er til í þann leiðangur ef hv. þingmaður er til í hann.

Hver á að verðleggja vörurnar?

Ég vil ekki hafa einhverja verðlagsnefnd búvöru; sjö einstaklingar, þar af fjórir sem eru fulltrúar bænda og afurðastöðva, þeir eru með meiri hluta. Ég kæri mig ekki um einhverja opinbera verðlagsnefnd á þessu sviði eða einhverju öðru. Markaðurinn á að ráða þessu eins og öðru á neytendamarkaðnum. Það er í alvörunni í hag bænda og neytenda að hafa það þannig.

Og hrakspárnar varðandi grænmetisbændurna. Ég dró það dæmi fram vegna þess að þær hrakspár heyrast alltaf, en þær hafa ekki ræst. Markaðshlutdeild innlendrar grænmetisframleiðslu jókst, framleiðni jókst og launin hækkuðu. Ég sé ekki vandann að auka hér frjálsræði og ég held einmitt (Forseti hringir.) að grænmetisdæmið, þótt það sé frá 2002, sé ágætisdæmi hvað það varðar.