149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[20:15]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég held að við eigum ekki að vera að elta þau lönd sem hafa dýr, óskilvirk landbúnaðarkerfi eins og Sviss og Noregur. Það eru líka, takið eftir, þau lönd sem hafa mjög hátt matvælaverð. Það er beint samband milli markaðsbjagandi afskipta stjórnvalda, m.a. í gegnum tollun, og hás matvælaverðs. Eins og ég gat um í ræðu minni er tilgangurinn með tollum að hindra innflutning matvara annars vegar og hækka verð á þeirri matvöru sem þó er flutt inn.

Mér fannst hv. þingmaður einmitt vera með hrakspár um að hér færi allt í kaldakol ef við opnuðum kerfið. Þess vegna tók ég grænmetisdæmið. Mér fannst svo gott þegar við opnuðum það kerfi, þá batnaði hagur grænmetisbænda almennt séð. Sama sáum við svolítið með ostana. Sama sjáum við varðandi t.d. erlenda jógúrt, meira að segja Mjólkursamsalan, þetta ríki í ríkinu, fór allt í einu að bregðast við með nýjum vörum og nýjungum.

Það þarf síðan að segja: Samkeppni eflir þessa dáð fyrirtækja og íslenskra (Forseti hringir.) bænda. Þess vegna held ég að íslenskir bændur óttist í rauninni ekki erlenda samkeppni, en við komum í veg fyrir að þeir geti notið góðs af því að keppa við erlenda aðila. Þess vegna kalla ég eftir auknu frjálsræði í landbúnaði með þeim hætti sem ég geri hér.