149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[20:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég sakna þess ákaflega að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson skuli ekki vera í salnum. Ég hefði mjög gjarnan viljað að hann hefði heyrt það sem mig langar að segja. Ég vona að hann heyri til mín hvar sem hann er.

Mér þótti Bleik brugðið áðan þegar hv. þingmaður bað þingheim um að biðja sig ekki að verja hina arfavitlausu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins. Ég hugsaði með mér að nú væri fokið í flest skjól og það hlyti að verða neyðarfundur í Brussel.

Ég er búinn að velta mikið fyrir mér til hvers þetta frumvarp sem er til umræðu er lagt fram. Ég tek fram að ég er ekki fulltrúi bænda frekar en annarra í þessum sal. Ég verð samt að segja að ef ræður og andsvör sem voru flutt áðan, t.d. af hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, yrðu klippt saman og flutt einhvers staðar yrði það líklega besti áróður fyrir íslenskum landbúnaði sem ég hef nokkurn tíma heyrt. Ég er sannfærður um að það myndi vinna menn til fylgilags við íslenskan landbúnað sem aldrei fyrr.

Eins og ég segi velti ég dálítið fyrir mér til hvers þetta frumvarp er lagt fram. Á bls. 4 í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Afurðastöðvum í mjólkuriðnaði hefur fækkað og mikil hagræðing átt sér stað í þau 13 ár sem ákvæðið hefur staðið í búvörulögum.“

Þetta er alveg hárrétt. Það kom fram í greinargerð frá Hagfræðistofnun háskólans að einmitt þessi gjörningur hefði haldið aftur af verðlagshækkunum á þeim vörum í líklega 10–15 ár.

Ég held að enginn hafi orðað það betur en fyrrverandi hv. þm. Ögmundur Jónasson. Hann sagði að þetta eina atriði hefði skilað 3 milljörðum á ári í hagræðingu, 2 til neytenda og 1 til bænda. Því spyr ég sjálfan mig: Til hvers vilja menn leggja til atlögu við einmitt það fyrirkomulag? Mér býður eiginlega í grun að það sem fyrir mönnum vaki sé að fá bændur til að berjast innbyrðis og draga þar með úr samkeppnishæfni þeirra og starfsþrótti. Ég óttast hins vegar að það muni í leiðinni hækka verð til neytenda. Það er alveg borðleggjandi að sú hagræðing sem hefur átt sér stað t.d. í mjólkuriðnaði — og ég tek fram að ég er ekki að verja einræðistilburði Mjólkursamsölunnar á sínum tíma, sem virðist sem betur fer aðeins búið að afleggja — virkaði til hagsbóta bæði fyrir neytendur og bændur.

Ég spyr sjálfan mig aftur: Til hvers vilja menn að bændur fari að berjast innbyrðis um markað þegar þeir standa einir og sér frammi fyrir batteríi, sem er verslunin, þar sem hópur skyldra aðila á fyrirtæki sem eru með um 70–80% af markaðshlutdeild á Íslandi? Hvernig eiga einstakir bændur að ná fótfestu gagnvart slíku ofurefli?

Við náum ekki árangri í því að lækka vöruverð fyrr en við tökum þetta alla leið. Nú liggur fyrir hæstaréttardómur um að flytja megi inn ófrosið kjöt. Gott og vel, þá tökum við á því. Ég hefði haldið að jafnhliða hefðum við þurft að flytja inn fleiri kaupmenn. Ég treysti því ekki að þeir sem nú eru á markaði flytji inn gæðavöru á góðu verði og skili því alla leið á borð til neytenda. Ég á eftir að sjá það.

Að því leyti til þykir mér þetta frumvarp furðulegt og velti fyrir mér tilgangi þess. Kannski er það forleikur að brennivínsfrumvarpinu, að menn vilji halda bændum til haga alveg eins og þeir vilja halda brennivínssölu í búðum til haga. Ég veit að Hagar verða örugglega mjög ánægðir með þetta en ekki er víst að neytendum gagnist það.

Verandi á stærsta markaðssvæði landsins, á höfuðborgarsvæðinu, get ég ekki alveg séð fyrir mér að þetta frumvarp komi til með að vænka hag neytenda á nokkurn einasta hátt.

Það vill því miður þannig til að ég á ósvaraða fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra þar sem ég spurði um virðisaukaskattstekjur ríkisins af sölu með landbúnaðarafurðir. Oft er talað, bæði í ræðustól og úti í þjóðfélaginu, eins og bændur séu beiningamenn á framfæri ríkisins og með því að leggja fram þá fyrirspurn vildi ég fá úr því skorið hvað ríkið er að innheimta af virðisaukaskatti, nettó, af verslun með sömu afurðir. Það skyldi þó ekki vera að sú tala væri a.m.k. jafn há ef ekki hærri en þeir styrkir sem menn hafa talað um, sem koma úr ríkissjóði til framleiðslu á landbúnaðarafurðum?

Þá minni ég enn á það að styrkir til landbúnaðarframleiðslu, sem eru nánast í öllum löndum heimsins, eru ekki síst settir fram til að lækka verð til neytenda. Ég hef oft tekið dæmi af því í umræðunni af því að menn tala stundum um að styrkir til landbúnaðar séu eitthvert séríslenskt fyrirbæri. Ég minni á mjög nýlegan gjörning þar sem alríkisstjórnin í Washington í Bandaríkjunum niðurgreiddi hrísgrjónaframleiðslu í Arkansas. Þau niðurgreiddu hrísgrjón voru síðan flutt út til Haítí og rústuðu þar sjálfsþurftarbúskap með hrísgrjón. Velta og sala með slíkar afurðir er því alla jafna með dálítið öðrum hætti en flest annað sem við höndlum með

Síðan hefur verið talað um að sjávarútvegurinn sé í blóma, sem hann er, og að hann sé ekki ríkisstyrktur. Ég vil samt minna á að við gætum tekið út það sem hægt væri að kalla félagslegar aðgerðir í sjávarútvegi, þ.e. sérstakan byggðakvóti Byggðastofnunar o.s.frv., og verðlagt það. Það síðasta sem ég sá í því var að það mætti verðleggja á 89 milljarða kr. Þetta er náttúrlega byggðastyrkur, að sjálfsögðu, vegna þess að við viljum halda landinu í byggð eða höfum alla vega viljað það hingað til. Að því leyti til er sá stuðningur sem við veitum til landbúnaðarframleiðslu tvíþættur, hefur tvennan tilgang, að halda landinu í byggð og tryggja að neytendur fái gæðavöru á mjög góðu verði.

Síðan kom það upp í fyrra, eins og ég minntist á áðan í örstuttu andsvari, að verð til sauðfjárbænda lækkaði einhliða um 29%. Það var ekki hin opinbera verðlagning, sem menn hafa verið að tala um að sé af hinu vonda, sem réð því. Það voru sláturleyfishafar sem gerðu það í krafti þess að hér væri alveg rosalegur birgðavandi. Í nýlegu svari sem ég fékk frá landbúnaðarráðherra kom í ljós að sá gríðarlegi birgðavandi var 1.100 tonn. Núna í upphafi sláturtíðar voru til rétt rúm 700 tonn af sauðfjárafurðum.

Það er svo furðulegt, og ég mun grafast frekar fyrir um það, að ekki var nokkur leið að fá út annað en að þetta væru birgðirnar í heilum skrokkum. Það lá ekki fyrir hvaða skrokkhlutar þetta voru, það lá ekki fyrir hvort það voru slög eða innmatur, hausar eða álíka. En í krafti þess að til voru 1.100 tonn af slíkum afurðum í fyrra var verð til sauðfjárbænda lækkað um 29%. Á sama tíma hefur lambalærið sem við kaupum úti í búð ekki lækkað hætishót.

Við þurfum náttúrlega að gera það að máli okkar núna að leita að því hvert þau 29% fóru, því að það er engin smáupphæð, 29% af öllum innlögðum sauðfjárafurðum í fyrra. Það eru engin smáverðmæti. Við þurfum að vita í hvers vasa það rataði, af því að bændur eru að borga brúsann eins og stundum áður. Þær vörur hafa ekki hækkað en þær hafa ekki lækkað, hvað þá sem nemur 29%.

Ef aðgerðin í fyrra var til þess að lækka birgðavanda, hvers vegna í ósköpunum settu menn ekki á stórkostleg tilboð eftir sláturtíð í fyrra til að vinna á hinum rosalega birgðavanda, sem var allt í einu orðinn 700 tonn í byrjun sláturtíðar núna og kótelettur ófáanlegar í verslunum? Svona var birgðavandinn mikill. Við ofmetum þetta.

Ég held satt að segja að ef mönnum gengur ekki það til með frumvarpinu að brjóta bændastéttina endanlega niður séu þeir að vaða reyk í því að það verði til þess að laga samkeppnisstöðu á einn eða annan hátt, hvort sem er inn á við eða út á við. Ég held að það sé alveg klárt.

Það hefur líka verið talað um í því sambandi að grænmetistilraunin frá 2002 hafi lukkast ljómandi vel og að allir séu alveg ofboðslega ánægðir með hana, þ.e. kaupmenn eru alveg sérstaklega ánægðir með hana vegna þess að þeir þurfa engar áhyggjur að hafa af grænmetisbændum. Þeir framleiða þær fjórar tegundir sem tollarnir voru teknir af og fá til þess einhvern lítils háttar styrk en hins vegar er annað grænmeti náttúrlega rándýrt, það sem ekki er framleitt innan lands, og menn geta sett sér sjálfdæmi um hvernig þeir verðleggja það, svona um það bil Þannig að sú tilraun, ef tilraun skyldi kalla, lukkaðist ekki fyrir alla.

Í stað þess að gera þetta ættum við kannski að íhuga hvers vegna kílóvattstund til stórra garðyrkjubænda kostar 10 kr. og 50 aura á Íslandi þegar hún kostar 8 kr. og 50 aura í Hollandi. Hvers vegna?

Ég veit að að hluta til er það út af skilgreiningu á raforkuafhendingu í þéttbýli og dreifbýli. Kannski er átakanlegasta dæmið uppsveitir Árnessýslu sem eru í 40–50 km loftlínu frá stærstu orkuverum á landinu. Þar borga menn hærra verð út af miklum dreifingarkostnaði. Hvers konar kjaftæði er það eiginlega? Fyrir utan það eru á Suðurlandi einu 600 störf í garðyrkju. Það eru fleiri störf en t.d. í álveri Alcoa á Reyðarfirði. Hvers vegna verðleggjum við ekki þá orku þannig að menn geti framleitt hér fjölbreyttari tegundir af grænmeti?

Ef við horfum á þetta hnattrænt fylgir náttúrlega stórt kolefnisspor því að flytja grænmeti frá Spáni, hvort sem er loftleiðis eða sjóleiðis, til Íslands.

Hvers vegna í dauðanum styðjum við ekki við það sem við getum hæglega gert vel í staðinn fyrir að reyna að brjóta það niður innan frá? Hvað sem hver segir get ég ekki séð betur en að með frumvarpinu sé einmitt vegið að því.

Auðvitað er það þannig að menn ráðast gjarnan á veikasta hlekkinn þegar þeir vilja gera breytingar og veikasti hlekkurinn í þessari keðju er framleiðandinn, bóndinn. Ég sagði áðan varðandi þá aðferð að bændur selji sjálfir, hver og einn, og keppi hver við annan að við höfum dæmi af kartöflubændum og ég hef ekki enn þá hitt þann kartöflubónda sem þorir að láta uppskátt um það hvernig viðskiptasambandi hans við stóru verslunarkeðjurnar er háttað.

Þá segi ég: Bíddu, ætlum við að yfirfæra það yfir á sauðfé? Ætlum við að yfirfæra það yfir á mjólkina? Ætlum við að selja þeim stórmörkuðum sem ráða ríkjum, sem eru bókstaflega í eigu sömu aðila? Lífeyrissjóðirnir eru eftir mínu höfði skyldir aðilar. Við erum náttúrlega að borga fyrir fram fyrir lífeyrinn okkar, sem við eigum að fá þegar við verðum gömul, með því að borga hærra verð fyrir það sem við borðum hverju sinni. Við erum því að borga sjálfum okkur inn á. Það er kannski jákvætt, ég veit það ekki. Einhverjum finnst það en mér finnst það ekki. Þess vegna segi ég að það sem við þyrftum að gera, og ég ámálgaði það áðan, væri að taka samkeppnislöggjöfina til að skilgreina hverjir séu skyldir aðilar t.d. í verslunarrekstri, til þess að þá sé hægt að skipta upp þeim fyrirtækjum sem hafa ofurvald yfir dreifingu á matvælum á Íslandi.

Í Bretlandi eru þrjár stórar keðjur með samtals um 50–60% markaðshlutdeild. Bretar eru búnir að vera skelfingu lostnir út af því árum saman. Á Íslandi er ein með 60% og önnur með rúm 20% og nú eru þær komnar í eigu skyldra aðila og við segjum ekki neitt og gerum ekki neitt. Samkeppnisyfirvöld hafa engar áhyggjur af því virðist vera en þau höfðu miklar áhyggjur af því að Mjólkursamsalan væri undanþegin í nokkur ár og skilaði 3 milljörðum á ári, 2 til neytenda og 1 til bænda. Menn þurfa kannski að forgangsraða aðeins.