149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

almannatryggingar.

24. mál
[23:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvörin. Varðandi tölurnar sem hún spyr um er undarlegt að í svari við fyrirspurn hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar á sínum tíma gefur Tryggingastofnun upp að kostnaður vegna aðgerðarinnar sé rúmir 3 milljarðar. Þetta svar barst árið 2016/2017 en í umsögn Tryggingastofnunar við frumvarpið frá 4. maí 2018 kemur hin talan fram. Þar stendur skýrum stöfum: Kostnaður vegna þeirra sem þegar eru með úrskurð um ellilífeyri hjá TR er um 1.030 millj. kr. á ári. Til viðbótar kemur svo einhver skekkjureikningur sem getur hækkað það. En útreikningur dr. Hauks Arnþórssonar var upp á 3,7 milljarða og hann sagði að það væri hagkvæmt, myndi skila hagnaði fyrir ríkissjóðs.

Þess vegna segi ég það að ef nýjustu tölur frá Tryggingastofnun eru upp á rétt rúman 1 milljarð er þetta orðinn stórgróði fyrir ríkissjóð og við ættum að geta orðið sammála um að segja: Við samþykkjum frumvarpið í hvelli og kýlum á þetta vegna þess að það er hagur fyrir alla. Eins og ég segi eru einstaklingar þarna úti sem þurfa hjálp og þurfa hærri lífeyri til að lifa af. Þarna úti eru líka Íslendingar sem gætu unnið sér eitthvað inn til að reyna að bjarga sér. Þess vegna segi ég að miðað við tölurnar ættum við að drífa í þessu og gera það strax.