149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

siðferði í stjórnmálum.

[15:05]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það vekur aðdáun áhorfenda þegar lið snýr kappleik sér í vil á síðustu sekúndu. En hvað kallast það þegar ráðamaður með vitneskju, a.m.k. góða innsýn vegna stöðu sinnar, gerir það sama nokkrum klukkustundum fyrir efnahagshrun meðan tugþúsundir lenda í miklum skakkaföllum? Er það sjálfsbjargarviðleitni, siðleysi eða jafnvel heigulsháttur?

Nýlega birti Stundin upplýsingar um fjármálaleikfimi hæstv. fjármálaráðherra í kringum bankahrunið 2008. Þá var hann alþingismaður og tók virkan þátt í stjórnun efnahagsmála á vegum stjórnvalda í aðdraganda hrunsins. Ný gögn sýna að umsvifin voru miklu meiri en áður var talið.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur reyndar fengið heilbrigðisvottorð frá hæstv. forsætisráðherra. Forsætisráðherra leitaði mögulega álits hjá núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra en varla hjá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur vorið 2016 sem sagði við vantraustsumræðu, með leyfi forseta:

„Það er óásættanlegt annað en að þeir ráðherrar sem koma fram í Panama-skjölunum stígi allir til hliðar og ríkisstjórnin fari frá. […] Svoleiðis flokkar eiga ekki að vera við stjórnvölinn.“

Í svari hæstv. forsætisráðherra til Stundarinnar segir hún, með leyfi forseta:

„Ég hef ekki verið og er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál sem eru afleiðing aukinnar einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar stjórnmálanna.“

Á alþýðumáli vill ráðherra horfa á heildarmyndina og laga kerfið en láta eiga sig þá sem misnota það.

Auðvitað verðum við að breyta kerfinu, hæstv. forsætisráðherra, en finnst henni eðlilegt, heppilegt og líklegt til að skapa traust um þá vinnu að maðurinn sem fer með vald yfir málaflokknum, sá sem skipar t.d. í stjórn Fjármálaeftirlitsins, sá sem á að uppræta skattaskjól, sé með þessa fortíð og þessa tengingu?