149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

innleiðing þriðja orkupakka ESB.

[15:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég held að ég verði að fá að þiggja boð hæstv. ráðherra um að fá að senda honum svörin hans fyrir fram næst, miðað við þau svör eða svaraleysi sem hann býður upp á þegar hann er spurður mjög einfaldrar spurningar. Hann fer að rifja upp að umsókn um aðild að Evrópusambandinu hafi verið mikil feigðarför, sem ég er svo sannarlega sammála ráðherranum um, en að byggja hafi átt eitthvert kerfi eftir að við komumst loksins út úr þeirri umsókn, sem hafi ekki verið byggt og ráðherrann sé að reyna að byggja núna. Hann getur samt ekki svarað því skýrt hvort hann ætli að innleiða þennan þriðja orkupakka.

Hann þarf kannski að byggja þetta kerfi sitt fyrst. Þetta er eins og stefna ríkisstjórnarinnar varðandi fjármálakerfið. Við erum alltaf að bíða eftir einhverri hvítbók um fjármálakerfið til að hún geti farið að taka á málunum. Svo kemur aldrei neitt og við förum stöðugt lengra í öfuga átt.

Við megum ekki og getum ekki beðið lengur með að eyða óvissunni sem ríkir um þennan þriðja orkupakka. Því spyr ég ráðherrann mjög skýrt: Er hann hlynntur innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins eða ekki?