149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[16:03]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þegar við metum ógnir þarf að huga að tvennu: Hversu líklegt er að ógnin raungerist og hversu miklum skaða veldur það ef hún raungerist. Það er eins með tilvistarógnina sem getur ekki gerst og skaðlausu ógnina sem gerist örugglega, að engra viðbragða er þörf gagnvart þeim. Hér hafa verið nefndar nokkrar ógnir sem eru misalvarlegar og mislíklegar. Þar má helst nefna rafrænar árásir á Ísland sem eru ekki bara mjög líklegar heldur hafa gerst nú þegar. Þær eru misalvarlegar, flestar sem betur fer ekki mjög alvarlegar í þjóðaröryggislegu tilliti. En efri mörkin eru talsvert mikil. Ég held að þetta sé ein stærsta þjóðaröryggisógnin okkar og ekkert magn bjórþyrstra dáta mun bjarga okkur frá slíkri vá. Eldflaugaárásir eru til samanburðar alveg gríðarlega ólíklegar. Áherslan á slíkar ógnir er í besta falli tímasóun, enda eru varnir okkar í augnablikinu í fullkomnu samræmi við líkurnar á því að þær ógnir raungerist. Reiði NATO er öflugur skjöldur fyrir okkur.

Svo eru það loftslagsbreytingar sem eru kannski ekki bein þjóðaröryggisógn í hefðbundnum skilningi en geta leitt af sér og munu líklega leiða af sér verulegar þjóðaröryggisógnir. Það er mikilvægt að skilja að loftslagsbreytingar eru ekki bara afleiðing yfirstandandi og viðstöðulausrar árásar mannkynsins á sína eigin plánetu, sem mun geta leitt af sér dauða og þjáningar hundraða milljóna manna, heldur eru þær jafnframt stærsta ógnin við borgaraleg réttindi fólks sem við vitum af í augnablikinu.

Höfum í huga að ef borgir á borð við Dacca, Miami, Rotterdam, Dúbaí og Manila fara á sjóinn mun heimurinn horfa upp á flóttamannavanda af stærðargráðu sem verður varla skilin. Áhrifin á hagkerfi heimsins yrðu veruleg, áhrifin á lífsgæði okkar yrðu veruleg, áhrifin og þunginn á réttarkerfi, velferðarkerfi, borgaraleg kerfi alls konar yrðu gríðarleg en áhrifin á þjóðaröryggi okkar eru enn sem komið er frekar óljós. Það þarf að ráða bót á þessu því að meðalhækkun á yfirborði sjávar er áætluð 1,2 m á komandi áratugum.