149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[16:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir með þeim sem hafa talað um að mikilvægt sé að við ræðum um öryggis- og varnarmálin sem og þjóðaröryggisstefnu hér í þessum þingsal. Mér hefur oft þótt slík umræða hverfast um of um veruna í NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin. Þess vegna er ég mjög ánægð með að heyra þá tóna sem heyrast í þessari umræðu þar sem aðrar — jafnvel stærri, að því er ég álít — ógnir sem að okkur steðja eru nefndar á nafn. Þær eru raunar nefndar í þjóðaröryggisstefnu okkar en það eru allt atriði sem geta tengst loftslagsbreytingunum, svo sem hættan sem fylgir ýmiss konar náttúrufarsbreytingum eða náttúruvá og matvælaöryggi, sem getur verið stefnt í hættu með loftslagsbreytingum.

Hér hefur netöryggið einnig verið nefnt og það getur skipt okkar innra samfélag mjög miklu máli. Mér finnst gott að umræðan komi inn á þessa þætti. Ég hef líka áhyggjur af því hvernig þessum málum er fyrir komið í alþjóðlegu samhengi þar sem þetta er það sem ég tel að heimurinn ætti að vera að fást við. Umræðan er því miður oft í hinum hefðbundnu áherslum á hernaðarmál. Þar held ég að full ástæða sé til að hafa áhyggjur af stigmögnun í orðræðu. Eitt af því síðasta sem í því hefur gerst eru auðvitað yfirlýsingar frá Bandaríkjastjórn (Forseti hringir.) um að hún hyggist segja upp samkomulaginu um meðaldrægar flaugar sem ég held að yrði alveg gríðarlega mikil afturför. Við Íslendingar höfum þar ákveðinn heiður að verja út af fundinum í Höfða 1986. (Forseti hringir.)

Mig langar að minna á að við þurfum á alþjóðavettvangi að tala fyrir friði og afvopnun og standa vörð um þá afvopnunarsáttmála sem gerðir hafa verið.