149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[16:27]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir að vera frumkvöðull að þessari umræðu, sem er mikilvæg. Hún er mikilvæg og hún er margslungin. Það er hægt að horfa á þessi mál frá margvíslegum sjónarhóli.

Mig langar helst að gera það að umtalsefni að við stöndum frammi fyrir því að breytingar virðast vera í alþjóðakerfinu. Það virðist vera þannig að öfl sem fara fram undir merkjum þjóðernishyggju, einangrunarhyggju og einfaldrar heimsmyndar sæki í sig veðrið. Það er ekki gott fyrir lítið ríki, háð alþjóðaviðskiptum og reglu og festu í alþjóðasamskiptum. Við eigum alls staðar þar sem við getum að leggja þau lóð á vogarskálarnar að við reynum að gera það sem hægt er til að efla samskipti sem byggjast á gagnkvæmri virðingu og frjálslyndi en tala sterkt gegn öflum sem ég nefndi hér að framan á öllum vettvangi.

Þessi öfl stækka vestanhafs og þau stækka austanhafs. Þau stækka líka í samstarfi sem við tökum virkan þátt í. Það er alveg óhætt að nefna að innan NATO eru þjóðir þar sem þróunin er að þessu leyti óhagfelld okkar almennu sýn, held ég, á heiminn og öryggi í heiminum. (Forseti hringir.) Þar held ég að Ísland eigi hiklaust að beita sér og tala gegn einangrunarhyggju og þjóðernishyggju en fyrir alþjóðahyggju og frjálsum viðskiptum.