149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

aðgerðaáætlun í húsnæðismálum.

5. mál
[17:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka það. Svo ég byrji nú á spurningunni sem ég náði ekki að svara áðan varðandi fjármagnskostnað, háa vexti og verðtryggingu sem oft hefur verið rætt um sem helsta ógnvaldinn á húsnæðismarkaðnum, sem orsaki hátt húsnæðisverð, þá skulum við líka hafa það í huga að vextir eru í sögulegu lágmarki, hafa verið það núna í töluverðan tíma. Okkur hefur líka tekist að koma böndum á verðbólguna þó að vissulega séu uppi ákveðnar ógnir í samfélaginu núna sem gætu einmitt breytt því. Það yrði mikið tjón fyrir okkur öll.

Þegar kemur að þéttingu byggðar þá get ég tekið undir mjög margt sem hv. þingmaður sagði hér áðan. Ég er hlynnt þéttingu byggðar, en það er hægt að gera það með misjöfnum hætti. Það er nákvæmlega það sem var ákveðið hér á höfuðborgarsvæðinu, sveitarfélögin nálgast það með mjög misjöfnum hætti. Sum eru í þeirri stöðu að geta boðið upp á það að fara inn á óbrotið land og má benda á óbrotið land sem er raunveruleg þétting byggðar, get ég nefnt Blikastaðalandið í þeim efnum. Að sjálfsögðu er hagkvæmt og skynsamlegt að nýta það.

Ég tel mjög mikilvægt að við bjóðum upp á þennan fjölbreytileika. Ég veit að Reykjavíkurborg hefur fyrst og fremst verið að horfa á þéttingu byggðar og þar er meira byggt í fjölbýli á meðan önnur sveitarfélög, eins og til að mynda Mosfellsbær, hafa líka getað boðið upp á sérbýliskostinn, það er enn þá fólk sem vill búa þannig.

Ég ætla ekki að segja að bíllinn sé alger hörmung. Ég held að hann sé að mörgu leyti mjög þarfur þjónn og mér þykir líka mjög vænt um bílinn minn, en ég tek algjörlega undir það að við þurfum að efla almenningssamgöngur. Þegar við horfum á skipulag lands og hvernig við ætlum að nýta það undir byggð er mikilvægt að horfa á það til lengri tíma litið hvernig við ætlum að reka alla okkar innviði, hvort sem það eru veiturnar, almenningssamgöngurnar eða slökkviliðið eða sorphirðan, eða hvað það er. Það þarf að horfa til allra þessara þátta. Og það að þétta byggð er að mörgu leyti mjög hagkvæmt. En það er samt ekki þannig að það þurfi öll hús sem rísa hér á næstu áratugum að vera hluti af þéttingu byggðar í Reykjavík.