149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:09]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir góða framsögu. Það er virkilega mikilvægt að við ræðum hvernig við viljum sjá uppfærslu á hegningarlögunum og hvernig við bregðumst við nýjum stafrænum veruleika, sem þetta frumvarp gerir vel. Núverandi ákvæði 209. gr. hefur ekki þá hagsmuni að leiðarljósi þótt það hafi verið nýtt til þessa og því tel ég gott að tekið sé á því á þann hátt sem gert er í frumvarpinu.

Það er einnig ljóst að tekið hefur verið tillit til ýmissa ábendinga sem komu fram síðast í þinglegu meðferðinni með verulega góðum breytingum að mínu mati. Ég tel t.d. að staðsetning núverandi ákvæðis sé mun eðlilegri en áður var, að framleiðsla og dreifing sé tekin eins og gert er núna og skýrari greinarmunur gerður á stórfelldum, af ásetningi og af gáleysi í þeim málum. Ég vil sjá frumvarpið fá umræðu og þinglega meðferð og tel það gott.

Það að enginn úr Sjálfstæðisflokknum sé á málinu felur engan veginn í sér að ekki sé stuðningur við það. Sjálf varð ég ekki vör við að sérstaklega hafi verið reynt að fá þingmenn úr mínum ranni á málið. Í stóra samhenginu skiptir það þó ekki máli, þótt sumir vilji gera sér mat úr, heldur það að málið sé komið fram og vel sé unnið úr því í þinginu, enda mikilvæg umræða að taka.

Ég tel að enn þurfi að skoða nokkur atriði í þinglegu meðferðinni. Eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kom inn á tekur hún glöð við vangaveltum um málið, sem þau hafa sýnt með þeim breytingum sem voru gerðar á milli þinga. Það sem maður veltir fyrir sér er réttarstaða barna á aldrinum 15–18 ára í þeim málum. Þetta er hópur sem þarf að gæta betur að í tengslum við mörg atriði.

Í frumvarpinu er reynt að takast á við falsað mynd- og hljóðefni. Það þarf að skoða og velta því upp hvort það sé brot á kynfrelsi. Mikil þörf er á að hugsa í stærra samhengi hvernig falsað stafrænt efni er yfir höfuð í löggjöfinni okkar. Ég tel mikilvægt að fá umsagnir um þann þátt málsins, sérstaklega hvort rétt sé að taka á því í stærra samhengi, gera það að stærri umræðu, og hvað sé rétti vettvangurinn fyrir falsaðar myndir sem eru ekki af viðkomandi einstaklingi.

Síðan er það líka hlutverk þingsins að skoða refsirammann í samhengi við önnur ákvæði hegningarlaga. Til dæmis er birting, varsla og dreifing á barnaníði tvö ár skv. 210. gr. a og í frumvarpinu sem við fjöllum um er lagt til að refsiramminn fyrir ásetningsbrot verði sex ár. Í málum þar sem manneskjan á myndinni er undir 18 ára væri hægt að fella háttsemina undir hvort ákvæðið sem er og þannig gæti skapast eitthvert misræmi. Með því er ég ekki að segja að málið sé ekki gríðarleg alvarlegt í báðum tilvikum en horfa þarf á lögin í heild sinni þegar nýju ákvæði á borð við þetta er bætt við, hvernig það samræmist öðrum ákvæðum eins og þessu og því sem nú hefur verið byggt á í dómaframkvæmd. Ég trúi því að þetta geti leitt til góðrar umræðu um hegningarlögin okkar og hvort breytinga sé þörf á fleiri stöðum í takt við nýjan veruleika.