149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:15]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Hún svaraði mér varðandi þennan aldurshóp, að það sé skoðað í samhengi við önnur ákvæði. Það er mikilvægt. Það sem hún kom síðan inn á með fölsunina skoðaði ég aðeins og þarna er verið að tala um enska orðið „deep fakes“ sem er vissulega mikil smánun og niðurlæging. Það sem ég vildi segja er að þetta leiðir til umræðu um stafræna friðhelgi á svo marga vegu, af því að fölsun getur átt sér stað á öðru efni en einungis þessu. Ég velti því fyrir mér hvort það sé þá stærri umræða sem þurfi að taka í tengslum við hegningarlög og annað, af því að reynt er að taka á þessu í þessu frumvarpi. (Gripið fram í.) — Ég hélt ég hefði komið inn á það, sem var það sem ég var aðallega að velta fyrir mér, varðandi barnaníð, að það sé öðruvísi refsirammi og hvort við getum lent einhvers staðar þarna á milli. Ég held að gæti þurfi sérstaklega að þessum aldursflokki þegar við skoðum allt sem gæti komið upp, hvort sem um er að ræða geranda eða þolanda sem eru kannski 17 og 18 ára — hvar þetta fellur undir. Ég held að þarna geti kannski skapast eitthvert rými sem við höfum ekki hugsað til enda, hvorki ég né aðrir.