149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:24]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi mjög og vil þakka þeim sem höfðu frumkvæði að framlagningu þess kærlega fyrir. Í okkar stafræna heimi er það nú svo að internetið gleymir engu og það er alveg ótrúlega íþyngjandi fyrir einstaklinga að verða fyrir stafrænu kynferðisofbeldi. Ég hef séð það í mínum störfum sem lögmaður að á köflum hafa brotaþolar greint svo frá að þeir geti eiginlega ekki greint á milli sársaukans sem er kominn til af kynferðisofbeldi, líkamlegu ofbeldi annars vegar og svo stafrænu ofbeldi hins vegar. Oft verður þetta ofbeldi, sem stundum er samhliða hinu líkamlega, eiginlega meira íþyngjandi og meira langvarandi af því að þá er óttinn viðvarandi við áframhaldandi broti. Það er óttinn við að brotin haldi áfram um aldur og ævi allt lífið. Það þarf að vera alveg skýrt í lögum að það er með öllu óheimilt. Við sem einstaklingar þurfum að vera meðvituð um að það verði refsað og það verulega við svona brotum.

Þeir dómar sem fallið hafa hafa ýmist fallið vegna einhvers konar blygðunarsemi eða dreifingar á klámi. Fer það eftir myndefninu. En hvort heldur sem er hefur refsiramminn eingöngu verið sex mánuðir. Og þegar maður les dómana sér maður að í rauninni eru dómarar mjög meðvitaðir um hversu alvarleg brot þetta eru, af því að þótt miskabætur sem dæmdar hafa verið í þessum málum hafi kannski ekki verið svo háar hafa þær samt nálgast mjög miskabætur sem dæmdar hafa verið vegna líkamlegs kynferðisofbeldis. Það er alveg ljóst að dómarar landsins sem hlusta á brotaþola og fá gögn málsins á borðið fyrir framan sig, átta sig vel á alvarleika málsins. En vegna laganna eins og þau hafa verið til þessa dags og eru enn þá, en koma nú vonandi til breytinga núna með þessu frumvarpi, hefur ekki verið hægt að dæma til þyngri refsingar en við höfum fengið að sjá. Iðulega eru það skilorðsbundnir dómar, en það er þá vegna þess að brotið er mögulega fyrsta brot.

Refsiramminn verður að vera hærri. Þess vegna er mikilvægt að samþykkja frumvarpið eins og það er, þ.e. fangelsi allt að sex árum, og ef um er að ræða brot sem framið er af stórkostlegu gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að þremur árum.

Aðeins varðandi umræðu um að skoða þurfi blygðunarsemisákvæðið í samhengi, þ.e. varðandi börn, má velta því fyrir sér hvort það sé ákveðin skörun þarna. En samt sem áður verður að líta til þess að það virðist vera að hægt sé að lesa 210. gr. almennra hegningarlaga hvað varðar dreifingu eins og dreifingu almennt á myndum eða myndefni af einhverjum sem er í rauninni óþekktur, að það sé bara dreifing á klámi. Það getur verið dreifing á einhverju myndefni þar sem dreifarinn þekkir ekki viðfangsefnið.

Í þessu er alveg skýrt að um er að ræða einstakling sem ekki veitir samþykki, að brotaþoli er einhver ákveðinn einstaklingur. Alla vega eins og ég les þetta ákvæði finnst mér það vera munurinn á annars vegar ákvæði 210. gr. og hins vegar því ákvæði sem hér er lagt til að sett verði inn. Dreifing á klámi getur verið af einhverjum erlendum rásum eða eitthvað slíkt, en hér er meira verið að tala um stafrænt kynferðisofbeldi sem beinist gegn ákveðnum brotaþola. Þó að vissulega sé rétt að skoða þetta í samhengi við önnur ákvæði fannst mér rétt að taka það fram.

Varðandi umræðuna um hvað eigi að gera ef gerandinn er ungur þá eru auðvitað tvö ákvæði í hegningarlögunum, 70. gr. sem og 74. gr., sem varða það. Í 70. gr. er mælt svo fyrir um að við ákvörðun refsinga eigi að taka tillit til ungs aldurs geranda, þannig að við erum með það fyrir í almennum hegningarlögum og því hefur margoft verið beitt og er bara ítrekað. Það er líka gert í líkamlegum kynferðisbrotum.

Hvað varðar 74. gr. kemur hún ekki til álita af því að í frumvarpinu er ekki talað um neitt lágmark. Það eru bara sektir eða fangelsi allt að sex árum eða allt að þremur árum. En 74. gr. mælir fyrir um að hægt sé að fara niður fyrir lágmarkið ef um mjög ungan aldur geranda er að ræða.

Varðandi það að hegningarlögin ættu mögulega að taka grundvallarbreytingum eða fara í heildarendurskoðun þá er ég ekki endilega viss um það, af því að hegningarlögin taka mjög ítrekað breytingum og hafa tekið mjög miklum breytingum í gegnum tíðina.

Það er eitt ákvæði sem ég vil leggja til að við förum í vinnu við að bæta inn og breyta og gerum það kannski bara á þessu þingi, þ.e. að við íhugum sérstaklega hvernig við ætlum að taka á málum eltihrella. Svo virðist sem eltihrellar nái einhvern veginn að skjóta sér undan þeirri refsiábyrgð sem ég held að samfélagið sé sammála um að þeir eigi að bera. Þeir ná einhverra hluta vegna að skjóta sér til hliðar. Það vill svo skemmtilega til að við erum auðvitað að fjalla hér á eftir um annað frumvarp sem varðar nálgunarbann. Ég held að við þurfum að taka þann hluta hegningarlaganna líka til endurskoðunar.

Að öðru leyti fagna ég mjög þessu frumvarpi, ég væri mjög til í að vera í hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að fá að fjalla um það, en treysti mínum góða samflokksmanni, Guðmundi Andra Thorssyni, til að huga vel að þessu ásamt öðrum nefndarmönnum.