149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:38]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir seinna andsvar. Ég átti alls ekki við að þingmaðurinn væri að efast um rétt annarra þingmanna til að leggja fram mál heldur var meira að vísa í þessar umsagnir. Í rauninni finnst mér miður að Dómarafélagið fari ekki í efnislega umræðu í umsögninni. Fram kemur að því finnist ekki tímabært að gera það en er engu að síður í efnislegri umræðu með umsögn sinni, eða ætti að vera það. Ég held að við hljótum að kalla eftir efnislegum umsögnum svo að við fáum góða umræðu, af því að þetta er ekki í fyrsta skipti sem málið er lagt fram.

Varðandi seinni spurninguna um eltihrella held ég að mjög brýnt sé að við skoðum það líka. Við höfum ýmis ákvæði í hegningarlögunum varðandi brot á friðhelgi einkalífs og svo erum við með lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili og þess háttar. En hvað varðar brot á friðhelgi einkalífs þá erum við kannski stödd á sama stað þar og með hið stafræna ofbeldi, refsiramminn er mjög lágur og virðist litlu skipta. Hann hefur ekki nægilega mikinn fælingarmátt, að því er virðist vera.

Auðvitað erum við stundum með þannig aðstæður að algerlega ómögulegt virðist að veita einstaklingi þá vernd sem nauðsynleg er, af því að við getum ekki lokað fólk inni og kastað lyklinum um aldur og ævi. Þó að viðkomandi fari í einhverja afplánun er sú ákvörðun kannski sex mánuðir og svo er viðkomandi kominn út og hefst handa að nýju. Það er sú staða sem lögreglan er í, að geta ekki bara látið viðkomandi hverfa. Það er alveg hryllilegt. Það er hryllilegt (Forseti hringir.) að geta ekki verið öruggur heima hjá sér og því miður allt of algengt. En við tölum kannski um það í næstu umræðu.