149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.

30. mál
[16:59]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Málið er að finna á þskj. 30 með málsnúmerið 30. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp sem skipuleggi stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Ráðherra ákveði skipan starfshópsins en í honum sitji a.m.k. einn fulltrúi frá Ungmennafélagi Íslands og einn frá Bláskógabyggð. Hópurinn taki m.a. mið af yfirstandandi vinnu við lagafrumvarp um lýðháskóla, nýtingu mannvirkja og skólans á Laugarvatni við rekstur sumarbúða Ungmennafélags Íslands, rannsóknum á brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum og reynslu af stofnun og rekstri annarra lýðháskóla hér á landi, einkum á Flateyri og Seyðisfirði. Starfshópurinn skili ráðherra niðurstöðum sínum eigi síðar en 31. maí 2019.“

Í greinargerð málsins kemur fram að málið var lagt fram á 148. löggjafarþingi en ekki var mælt fyrir því þá og er það nú endurflutt lítillega breytt, þ.e. í greinargerð. Tillaga þessi er lögð fram þó svo að á Íslandi sé engin almenn löggjöf enn þá um lýðháskóla.

Með þingsályktunartillögu nr. 41 frá 145. löggjafarþingi um lýðháskóla, sem samþykkt var á Alþingi 2. júní 2016, var mennta- og menningarmálaráðherra falið að hefja vinnu við gerð frumvarps til laga um lýðháskóla á Íslandi að norrænni fyrirmynd. Markmiðið með því var að gera lýðháskóla að viðurkenndum valkosti í menntakerfinu sem njóti lagalegrar umgjarðar og opinbers stuðnings, eins og segir í inngangi greinargerðar með tillögunni. Samkvæmt henni er ráðherra falið að leggja fram frumvarp í síðasta lagi á vorþingi 2017. Sú tímasetning hefur ekki staðist, en vinna við samningu frumvarps til laga um lýðháskóla fer fram í ráðuneytinu um þessar mundir og er á þingmálaskrá ráðherra. Starfshópurinn sem skipuleggi stofnun lýðháskóla á Laugarvatni skal fylgjast með samningu löggjafar um lýðháskóla og taka mið af henni í vinnu sinni.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fjalla um lýðháskóla og kosti þeirra inn í menntaflóru okkar og þá sem hafa verið starfræktir hér, LungA á Seyðisfirði og lýðháskólann á Flateyri, og þann fyrirhugaða skóla sem lagður er til hér og möguleikana á að reka áfram ásamt ungmennabúðum, eða sumarbúðum, í samvinnu við Íþróttafélag fatlaðra.

Lýðháskólar eru um margt ólíkir því sem við eigum að venjast, til að mynda í hefðbundnum framhaldsskólum eða háskólum, og hafa meiri sveigjanleika í námskrá og kennsluháttum. Ágætislýsingu eða skilgreiningu er að finna á heimasíðu Áttavitans, sem er upplýsingagátt í umsjón Hins hússins, sem miðar að ungu fólki. Þar er líka að finna hagnýtan fróðleik um lýðháskóla á hinum ýmsu sviðum öðrum sem snertir ungt fólk og þeirri spurningu m.a. svarað hvað lýðháskóli sé. Segir þar, með leyfi forseta:

„Lýðháskólar eru eins konar lífsleikniskólar þar sem nemendur geta valið sér nám úr fjölda ólíkra námsgreina. Í lýðháskólum er ekki lögð áhersla á próf heldur fremur þátttöku og að nemendur læri eitthvað gagnlegt og skemmtilegt. Lýðháskólar eru starfræktir á öllum Norðurlöndunum.“

Það má auðvitað setja spurningarmerki við það að læra eitthvað gagnlegt og skemmtilegt. Ég efast ekkert um að mörgum þyki skemmtilegt í hinum hefðbundnari skólum. En það einkennir slíka skóla, og óþarfi að misskilja það í greiningunni, að áherslan er ekki á próf og prófaundirbúning eins og við þekkjum gjarnan. Ef maður skoðar slíka skóla, hvort heldur þá sem hafa verið starfræktar hér eða á Norðurlöndunum, svokallaðir folkehøjskoler, er einkennandi fyrir þá, hvar sem borið er niður, að nemandinn og áhugasvið hans er alltaf í forgrunni. Lögð er rík áhersla á að elta áhugasvið nemandans. Það eru engin próf. Skólarnir eru fyrir alla og oft og tíðum, til að virkja nemendur, taka þeir þátt í að setja saman eigin dagskrá með stuðningi kennara við þekkingaröflun og upplifun með áherslu á þátttökuna.

Það eru engin sérstök námsskilyrði eða önnur próf eða námsáfangar sem þarf að vera búið að ljúka til að komast að. Þetta eru gjarnan heimavistarskólar þar sem nemendur búa og sækja þá þekkingu sem þeir hafa áhuga á. Slíkir skólar hafa verið starfræktir víða erlendis og eiga sér langa hefð. Við þekkjum kannski flest fyrirmyndina frá Danmörku. Þar var fyrsti skólinn stofnaður 1830 þar sem kjarninn í hugmyndafræðinni var að skólastarfið ætti að vera mótað af nemendum sem kennurum og stjórnendum. Frelsi hefur alla tíð verið til grundvallar; frelsi til að læra, frelsi til að velja, frelsi til að vera, frelsi til að hanna eigin dagskrá.

Eins og ég sagði eru tveir skólar starfræktir hér á landi í dag. Annar þeirra er LungA, skóli sem var stofnaður 2013 og er lýðháskóli á Seyðisfirði rekinn á styrkjum frá opinberum aðilum og einkaaðilum, auk skólagjalda. Þar er lögð rík áhersla á sjálfsskoðun í gegnum listir og skapandi vinnu. Ég hef ekki heyrt annað en að þar fari virkilega gott starf fram. Haustið 2018 hóf Lýðháskólinn á Flateyri starfsemi sína. Þar eru í boði tvær ólíkar námsleiðir sem hvor um sig tekur að hámarki við um 20 nemendum. Byggir önnur námsleiðin á styrkleikum staðarins, þ.e. samfélagi, náttúru og menningu, en hin námsleiðin byggist á hugmyndavinnu og sköpun. Skólinn nýtir vannýtt húsnæði í þorpinu fyrir starfsemina.

Ég hvet alla sem vilja kynna sér frekar lýðháskóla og þá hugmyndafræði sem er að baki að skoða heimasíðu skólans á Flateyri. Það er vönduð síða þar sem er að finna virkilega gagnlegar upplýsingar og vel fram settan fróðleik um ýmislegt sem snýr, ekki bara að starfsemi skólans sjálfs á Flateyri heldur gefur góða innsýn almennt inn í hvernig lýðháskólar eru frábrugðnir hefðbundnari skólum og öðru námsframboði og bjóða upp á ólíka nálgun í þekkingaröflun og kennsluháttum.

Þar segir m.a., með leyfi forseta:

Við Lýðháskólann á Flateyri er nemandinn í miðjunni, fær stuðning frá kennurum, samfélagi nemenda og íbúa þar sem þekking, færni og hæfni nemenda verður til með þátttöku í verkefnum sem tengjast atvinnulífi, samfélagi og menningu. Áhersla er á þjálfun í virkri skapandi hugsun í gegnum verkefni sem krefjast samvinnu og ólíkrar reynslu. Skipulagið og námið byggir á þematengdum verkefnum sem sameina atriði sem tengja námskeiðin og samfélag skólans við líf, samfélag og menningu staðarins.

Með áherslunni á heimavist og það að nemendur sinni námi sínum á staðnum, þar sem þeir búa, verður þetta samfélag skóla öðruvísi og hluti af hugmyndafræðinni.

Virðulegi forseti. Ég tel að stofnun slíkra skóla sé góð fyrir menntunina, nemendurna og samfélagið. Þá getum við spurt okkur hvort þörf sé á þriðja skólanum. Ég tel svo vera. Þess vegna legg ég fram þetta þingmál.

Í gegnum tíðina hefur Ungmennafélag Íslands reglulega viðrað áhuga á því að stofna lýðháskóla. Í nokkur skipti hefur verið farið af stað með verkefnið en það hefur jafnan stöðvast því að ekki er til lagaumgjörð um það skólaform á Íslandi, eins og fram hefur komið. Ungmennafélag Íslands hefur lagt áherslu á að hlutirnir gerist í réttri röð og að lagaumgjörð sé fyrsta skrefið. Þess vegna legg ég til að þetta tvennt sé unnið samhliða.

Áhugi er fyrir stofnun lýðháskóla á Laugarvatni með aðkomu menntamálayfirvalda og Bláskógabyggðar. Oft þarf eitthvert frumkvæði héðan til að tengja saman þá aðila sem geta sett af stað slíka skóla.

Ungmennafélag Íslands hefur þegar myndað samstarfsteymi við lýðháskóla í Danmörku sem er tilbúinn að leggja sitt af mörkum í undirbúningi og framkvæmd, enda er rík hefð, eins og ég kom inn á, fyrir lýðháskólum í Danmörku og víðar á Norðurlöndum. Ungmennafélag Íslands hefur jafnframt rekið ungmennabúðir á Laugum í Sælingsdal til fjölda ára. Þar koma skólahópar í 9. bekk í tæplega vikudvöl með kennurum sínum. Það hefur verið eftirsóknarvert að koma í búðirnar en þar er lögð áhersla á félagsfærni, útivist og upplifun án nútímatæknibúnaðar. Öll viðfangsefnin eru unnin í óformlegu námi. Nú hefur Dalabyggð selt þessar eignir að Laugum og óvissa er uppi um hvað við tekur. Rætt hefur verið um að færa búðirnar að Laugarvatni.

Með aðkomu Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni myndast tækifæri til að koma að stofnun lýðháskóla og rekstri ungmennabúða og tryggja um leið að ýmis verkefni stöðvist ekki, heldur geti haldið áfram í óbreyttri mynd. Þar má nefna stuttar ferðir, samkomur og fundi íþrótta- og ungmennafélaga og ekki síst sumarbúðir Íþróttasambands fatlaðra, en fram hefur komið eindreginn vilji forsvarsmanna sambandsins til að halda búðunum starfræktum áfram.

Ég vil meina að kostir lýðháskóla séu óumdeildir þegar kemur að fjölbreytni. Þar liggur styrkur þeirra. Unnið er út frá öðrum áherslum og er áhersla á mannrækt, sjálfsrækt og virka þátttöku nemenda. Mér finnst það hafa vantað í menntakerfi okkar. Ég held að full þörf sé á þriðja skólanum og með honum erum við alla vega komin með þrjá skóla í þremur landshlutum. Það held ég að sé mjög jákvætt og muni auka fjölbreytni og valmöguleika í menntakerfinu og mæta þörfum nemenda með það að leiðarljósi að örva þá til þátttöku í verkefnabundnu og lausnamiðuðu námi og ýta undir frumkvæði, gagnrýna hugsun og skapandi starf nemenda.

Niðurstöður nýlegrar rannsóknar um áhrif þess að fara í lýðháskóla sýna marktæk jákvæð áhrif af veru í honum í tengslum við brottfall úr námi. Ungt fólk sem flosnað hefur úr námi eykur líkur sínar á því að fara aftur í nám og ljúka því með því að fara í lýðháskóla. Það kemur oft millibilsástandi í lífi okkar, ég tala nú ekki um á þeim árum þegar við erum að fara í gegnum skóla. Ég held að þetta geti reynst okkur happadrjúgt að því leytinu til.

Þá hefur starfsemi þeirra tveggja skóla sem þó hafa verið starfræktir, LungA í fimm ár og svo nýstofnaður skóli á Flateyri, sýnt að þörf er á slíkum skólum til að auka fjölbreytileika. Með tilkomu slíks skóla á Laugarvatni, með áherslu á íþróttir, værum við komin með þrjá skóla í þremur landshlutum.

Eins og ég sagði í upphafi er frumvarp til laga um lýðskóla til vinnslu í ráðuneytinu og er á þingmálaskrá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Ráðgert er að ráðherra leggi málið fyrir Alþingi í marsmánuði og ég á ekki von á öðru en að svo verði. Ég myndi sannarlega óska þess að málið gæti klárast inn í þá vinnu þannig að við gætum unnið þetta samhliða, en það verður að játa að bagalegt er að við skulum ekki enn vera búin að tryggja lagalega umgjörð og um leið með lögum stöðu lýðháskóla eða lýðskóla á Íslandi. Ég sá þegar ég skoðaði þingmálaskrána að búið er að breyta lýðháskólanafninu í lýðskóla. Ég er ekki komin lengra í þeirri hugsun heldur sá það bara á þingmálaskránni, en það hlýtur að hafa verið einhver ástæða fyrir því.

En við þurfum auðvitað með lögum að viðurkenna slíka skóla og starf þeirra og um leið tilheyrandi skilyrði og kröfur um starfsleyfi, gæði náms og eftirlit, sem er nauðsynlegt fyrir starfsemi skólanna til að hljóta opinberan stuðning. Það færi vel á því að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og klára samhliða almenna löggjöf um lýðháskóla, eða lýðskóla, eins og boðað er í þingmálaskrá.

Ég vona og geri ráð fyrir að málið hljóti skjóta meðferð og er ekki í vafa um að það fái faglega afgreiðslu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.