149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

[10:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get glatt hv. þingmann með því að upplýsa að frumvarpið er tilbúið og það verður lagt fyrir þingið á allra næstu dögum. Það er óheppilegt að ekki skyldi hafa tekist að standa við þá tímafresti sem gefnir voru í þessari júní-þingsályktun. Þar spilaði mögulega inn í að þing var ekki að störfum í síðustu viku en það er einungis dagaspursmál hvenær málið verður lagt fyrir þingið. Þá tekur við umræða um það hvort við viljum að tilteknar greiðslur, eins og þær sem þetta frumvarp fjallar um, eigi að fá þá skattalegu meðferð sem gengið er út frá. Með því væri ákveðið frávik frá þeirri almennu reglu að bæturnar hlytu sömu skattalegu meðferð. Það verður að segjast eins og er að hér hafa verið tilteknar bætur, greiðslur til þeirra sem eru í hvað allra veikastri stöðu, þeirra sem þurfa sérstaka framfærsluuppbót vegna aðstæðna sem hafa skapast í þeirra lífi. Það er því ekki erfitt að skilja hvers vegna góð samstaða myndaðist um það hér á þinginu að gera þessa undanþágu og málið mun koma fram á allra næstu dögum. Þá tökum við þessa umræðu dýpra. Almennt séð er ég talsmaður þess að við höfum skatta og álögur og þar með talið tekjutengingar lægri en þá þarf stofninn að vera breiðari. Það kemur ekki í veg fyrir að við séum með einstaka undanþágur frá þeirri meginreglu.