149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

kirkjujarðasamkomulag.

[10:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að leggja til að ríkið hætti að standa við sína samninga. Ég gagnrýni hins vegar þennan samning vegna þess að hann er í einu orði hroðalegur. Það að auka fjárhagslegan aðskilnað er í mínum huga að hætta að fjármagna kirkjuna umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög varanlega þótt ég átti mig á því að það sé sjálfsagt ekki mögulegt samkvæmt hinu hábölvaða ákvæði sem er í stjórnarskrá núna, 62. gr., ákvæði um þjóðkirkju.

En ég vildi spyrja að tvennu. Ég skil svar hæstv. ráðherra þannig að það felist ekki í samningsafstöðu ráðherrans að gera þetta fyrirkomulag einhvern veginn óvaranlegt, þ.e. einhvern veginn þannig að einhvern tímann linni þessum greiðslum ríkisins til kirkjunnar, það verði búið að borga fyrir jarðirnar. Ég skil hæstv. ráðherra þannig.

Í öðru lagi spurði ég hvort Alþingi myndi koma að því að klára slíka samninga og staðfesta gildi þeirra áður en þeir tækju gildi. Mér finnst mjög mikilvægt að hvaða breytingar sem annars verða gerðar á þessu komi þær fyrir þingið og spyr ég því alveg sérstaklega að því.