149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

opinberar framkvæmdir og fjárfestingar.

[11:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem er að frétta af málinu er að það er í vinnslu og ég var nú síðast með það í þessari viku á borði mínu og til úrlausnar. Þetta er tvíþætt þingsályktunartillaga. Hún fjallar annars vegar um að hingað beri að koma inn með hugmyndir að úrbótum. Ég verð að segja að ég held að varðandi þann þáttinn þurfum við að leggja mat á það fyrirkomulag sem við erum með í dag. Ég er kannski ekki tilbúinn til að fullyrða nú þegar að það sé mikil brotalöm í því fyrirkomulagi sem við erum með en við tökum stundum með opin augun áhættu eins og t.d. átti við í tilviki Vaðlaheiðarganga. Þar tókum við bara með opin augun, ég reyndar tók ekki þátt í því að styðja það mál, en með opin augun tók þingið þá ákvörðun, þrátt fyrir mikla áhættu og mikla óvissu, að leggja af stað.

Síðan er kannski bara innbyggt eðli stórframkvæmda að það er mikil óvissa oft og tíðum. Þetta þekkja einkaaðilar líka. Hefur einhver einhvern tímann hitt mann sem ákvað að fara í framkvæmdir heima hjá sér sem fóru aðeins fram úr kostnaði? Hefur einhver lent í því? Kannski sjálfur? Ég held að margir kannist við það. Það sama á auðvitað við hjá hinu opinbera. En aðalatriðið er að það sé nægur undirbúningur, að það sé gagnsæi og það séu skýringar á því hvað hafi farið úrskeiðis og menn hafi þannig tækifæri til þess að læra af því sem gerðist og bregðast við.

Mig langar að nefna eitt í þessu sambandi. Þegar slíkir hlutir gerast í því umhverfi sem við erum að reyna að starfa eftir í dag ber okkur að gera ráðstafanir til að bæta upp fyrir annars staðar þannig að við náum t.d. afkomumarkmiðum, skuldauppgreiðslumarkmiðum o.s.frv. Út frá því er gengið í lögum um opinber fjármál. Síðan er það hinn þátturinn sem fjallar um þennan samstarfsvettvang. Það mun skýrast þegar ég kem með viðbrögð við þessari þingsályktunartillögu hvernig við sjáum það fyrir okkur.