149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

drengir í vanda.

[11:22]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mikilvæga og brýna mál á dagskrá. Ég ætla að nota þann stutta tíma sem ég hef til að tala einungis um einn lítinn part af því, sem auðvelt er að laga og auðvelt að breyta fyrir okkur og viðkomandi ráðherra sem það snýr að, og það er kerfið sjálft og hvernig við tökumst á við vandamál, ekki bara ungra drengja þótt þeir séu í miklum meiri hluta í þeim flokki fólks sem ég ætla að tala um.

Það er beinlínis þrýstingur á ungt fólk í skólum, í grunnskólum og framhaldsskólum, fólk sem er enn á barnsaldri í skilningi laganna, þrýstingur frá foreldrum og skólunum sjálfum að fá greiningu. Það standa engin úrræði til boða fyrir stráka, og auðvitað á sama við um stelpur, í vanda á grunnskólaaldri og framhaldsskólaaldri. Enginn stuðningur, engin sálfræðiaðstoð, ekkert, fyrr en greiningin er komin, fyrr en stimplunin er komin, það er eitthvað að þér. Fyrr er ekkert gert.

Ekki er byrjað að hjálpa fólki fyrr en búið er að segja: Þú ert kvíðinn, ofvirkur. Þú þarft að fá greiningu sem slíkur. Pillurnar líka. Svo færðu aðstoðina. Svo er byrjað að hjálpa með sálfræðingi. Engin greining: Ekkert, engin hjálp fyrir greiningin er komin.

Það brýtur niður sjálfsmynd, ekki síst ungra stráka og stelpna, að stimplunin skulu vera komin strax á þeim aldri. Þetta fólk er síðan miklu líklegra til að fara inn á örorku þegar það nær þeim aldri en fólkið sem kemur greiningarlaust, stimplunarlaust, út úr skólanum.

Breytum því, grípum fyrr inn í, hjálpum fólki. Gefum því aðgang að sálfræðingum áður en það er stimplað og fær uppáskrift upp á pillur.